Innlent

Smiðnum veitt skaðleysi fyrir að leggja parket á blaut gólfin

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Skrifstofur OR. Vesturhúsið stendur autt, enda talið svo gott sem ónothæft sökum raka og myglu.
Skrifstofur OR. Vesturhúsið stendur autt, enda talið svo gott sem ónothæft sökum raka og myglu. vísir/vilhelm
„Ég varaði við þessu og það var gert lítið úr mér. Þá fékk ég uppáskrifað að ég myndi aldrei bera ábyrgð á þessu,“ segir húsasmíðameistarinn Sigurður Waage, sem sá um að leggja parket í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur þegar þær voru byggðar. Sigurður staðfestir að honum hafi verið gert að leggja parket á hráblaut gólf vesturhúss höfuðstöðvanna og að þeim sem stýrðu framkvæmdunum hafi legið svo á að þeir voru reiðubúnir að fría hann ábyrgð af verkinu. Slík var pressan við að fresta ekki opnun hússins.

Sigurður segist hafa varað við gólfum vesturhússins á fundi undirverktaka á byggingartímanum, en þær áhyggjur voru slegnar út af borðinu. Frásögn Sigurðar varpar frekara ljósi á hroðvirkni við byggingu höfuðstöðva OR sem leitt hefur til þess að vesturhúsið er talið svo gott sem ónothæft sökum raka og myglu. Svo virðist sem raki hafi ekki aðeins átt greiða leið inn um útveggina, heldur hafi gólfin verið vandamál frá upphafi.

Gólf vesturhússins eru frábrugðin hefðbundnari steyptum gólfum eins og er að finna í austurhúsi OR-hússins. Sigurður segir gólfin samanstanda af trapisustálgrind með lagnarennum sem síðan hafi verið steypt í.

„Ég var ekki sáttur við að leggja ætti rakavarnarlag ofan á blaut gólfin. Þú lokar ekki rakann inni því allt efni sem við byggjum úr þarf súrefni. Það er eðlilegt að það sé raki en hann verður að komast einhvers staðar út.“

Álitið sem Sigurður bar upp á fundi undirverktaka var eins og hann orðar það að „gólfin yrðu aldrei í lagi“ ef það yrði stálskúffa undir og rakavarnarlag yfir þeim. „Ég var bara jarðaður. Ég sagði að ég gæti ekki borið ábyrgð á þessu og lagði til að leggja teppi í ár meðan gólfið næði eðlilegum raka. Þá sagði eftirlitsverkfræðingur við mig: „Við erum hér til að leysa málin, drengur,“ og með því var það afgreitt,“ segir Sigurður. „Ég sagði að ég myndi vilja fá yfirlýsingu um að ég bæri enga ábyrgð á þessum gólfum því þau yrðu alltaf sjúk. Sem ég og fékk.“

Svo fór að skipta þurfti um gólfefnin skömmu eftir að húsið var tekið í notkun árið 2003. Sigurður hafnaði því að koma að endurlagningunni.

Gólf vesturhússins fengu aldrei að jafna sig og þorna almennilega. Sigurður minnist þess að hafa eitt sinn borað upp í gólfið til að sýna rakann. „Þú gast farið í sturtu undir þessu. Það lak í tíu mínútur. En ennþá héldu þeir fram að þetta væri í lagi.“

Minnst var á lagningu parketsins á hráblaut gólf OR-hússins í skýrslu úttektarnefndar um OR árið 2012 í vitnisburði Ólafs Jónssonar, lögfræðings og fyrrverandi ritara stjórnar fyrirtækisins. Ekki hafi mátt fresta opnun hússins. „Þetta voru eins og fjallgarðar,“ sagði Ólafur sem kallaði húsið hönnunarslys.

Sigurður tekur undir það. Tillaga hans með teppið hefði kannski hjálpað gólfunum en síðan hafi komið í ljós að útveggirnir voru ónýtir.

„En ekki gleyma því að raki úr gólfunum leiðir út í þessa veggi. Í austurbyggingunni er bara venjulegt gólf, engin stálkápa undir og þar er allt í lagi. En hin gólfin eru helsjúk, vegna þess að þar er röng hönnun.“

Hjá OR fékkst staðfest bæði að Sigurði hafi verið veitt skaðleysi og að skipt hafi verið um parket fljótlega eftir að húsið var tekið í notkun á hluta hússins en annars staðar, þar sem það hafi verið farið að bólgna, hafi það verið fest niður í gólfplötuna. Byggingarstjórinn vilji þó meina að allt hafi verið með felldu með lagninguna. 


Tengdar fréttir

Útveggirnir kostuðu hundruð milljóna

Útveggjakerfið sem var hannað fyrir hús Orkuveitu Reykjavíkur kostaði yfir tvö hundruð milljónir. Óháður dómkvaddur matsmaður mun skera úr um hvort kerfið hafi verið ranglega sett upp.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×