Þegar ekið er úr Patreksfirði yfir á Rauðasand er það bærinn Melanes sem sést lengst á vinstri hönd út með fjallinu. Það var í slysi á þessum vegi árið 2003 sem bóndinn þar, Ástþór Skúlason, lamaðist neðan mittis, en hann þótti sýna ótrúlega þrautsegju þegar hann ákvað að halda áfram búskap, bundinn í hjólastól.

„Ég er jú með fáeinar kindur enn en svo má kannski segja að maður sé að snúa sér í ferðamennskuna og gerast ferðabóndi,” segir Ástþór.
Afkoman var orðin svo léleg að hann sá fram á að örorkubæturnar færu til að greiða með sauðkindinni. En fleira kemur til.
„Ég er einn eftir hér á stóru svæði með sauðfé og smalamennskur eru orðnar mjög erfiðar. Ég er eiginlega algerlega upp á aðra kominn með smalamennskur, þannig séð. Það er bara að verða erfiðara og erfiðara að fá fólk í smalamennskur.”

„Ætli það hafi ekki komið hér í gegn í fyrrasumar trúlega eitthvað í kringum sextán þúsund manns. Það er stöðug aukning.”
Ástþór og kona hans, Sigríður María Sigurðardóttir, stofnuðu í fyrra fyrirtæki um ferðaþjónustu og hafa komið upp tjaldstæði með þjónustuhúsum.
„Við ákváðum að reisa hér nýja aðstöðu. Draumurinn er að geta látið það vaxa svolítið og hafa af því tekjur í framtíðinni.”

„Ef það tekst þá sjáum við fram á að geta vel búið hér áfram. En það náttúrlega veltur á því að geta komið upp frekari aðstöðu,” segir Ástþór Skúlason, bóndi á Melanesi.