Sport

Íslensku stelpurnar þurfa góðan endasprett

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnheiður Sara er í 3. sæti fyrir lokadaginn á heimsleikunum í Crossfit.
Ragnheiður Sara er í 3. sæti fyrir lokadaginn á heimsleikunum í Crossfit. Mynd/Fésbókarsíða Crossfit
Úrslit á heimsleikunum í Crossfit ráðast í dag. Mikil spenna er í kvennaflokki en ljóst er að róður íslensku keppendanna er þungur.

Þrautin Heavy 17,5 fór fram í nótt og náðu íslensku stelpurnar sér ekki jafn vel á strik og oft áður. Katrín Tanja Davíðsdóttir endaði í 8. sæti í þrautinni, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir í 10. sæti og Annie Mist Þórisdóttir í því þrettánda.

Fyrir lokadaginn er Sara í 3. sæti í kvennaflokki og Annie Mist í því fjórða. Katrín Tanja, sem hefur unnið keppnina undanfarin tvö ár, er í 6. sæti.

Íslensku stelpurnar þurfa að elta forystusauðinn Tia-Clair Toomey sem er með 786 stig. Kara Webb er í 2. sæti með 772 stig. Sara er með 732 stig, Annie 726 stig og Katrín Tanja 676 stig. Sú síðastnefnda þarf því að eiga algjöran toppdag til að vinna titilinn Hraustasta kona veraldar þriðja árið í röð.

Björgvin Karl Guðmundsson er í 7. sæti í karlaflokki. Lítil spenna er í karlaflokknum því meistarinn Matthew Fraser er langefstur. Hann er með 174 stiga forskot á næsta mann, Noah Ohlsen.

Keppni á heimsleikunum hefst á ný klukkan 14:00 í dag og verður Vísir með beina útsendingu frá keppninni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.