„Allir gráta eru félagasamtök sem vinna að því að opna umræðuna um þunglyndi og kvíða á meðal barna og unglinga á Íslandi,“ segir Orri Gunnlaugsson, verkefnastjóri samtakanna, en hann, Aron Már Ólafsson og Hildur Skúladóttir stofnuðu samtökin í desember.
Hugmyndina að samtökunum átti Aron Már Ólafsson leiklistarnemi, betur þekktur sem Aronmola, en hann er ein stærsta samfélagsmiðlastjarna landsins.
„Aronmola er með yfir 30 þúsund fylgjendur á Snapchat og hann langaði til þess að nýta samfélagsmiðlana í eitthvað uppbyggilegt. En það var einmitt í gegnum Snapchat sem hann fann þörfina fyrir verkefnið Allir gráta,“ segir Orri.
Aron vakti töluverða athygli þegar hann fór til Los Angeles í nóvember í fyrra þar sem hann var staddur til að taka upp efni ásamt því að spóka sig um með stærstu samfélagsmiðlastjörnum heims. Á þessum tíma opnaði Aron sig um persónulega reynslu af þunglyndi og talaði opinskátt um reynslu sína í beinni útsendingu á Facebook-síðu sinni.
„Þetta fór allt af stað eftir það. Við höfum verið að vinna í því að safna í styrktarsjóð, sem við komum til með að úthluta úr í byrjun júní,“ segir Orri og bætir við að hver sem hafi hugmynd að verkefni til að efla geðheilsu barna og unglinga á Íslandi geti sótt um í sjóðinn.

„Þar sem ég byrjaði á því að opna mig á Snapchat um mína eigin reynslu langaði mig bara að fara í skólana og tala beint við krakkana,“ segir Aron Már.
Umsóknarferlið er opið til 1. júní á allirgrata.is/styrktarumsokn. Nú þegar hafa borist yfir 50 hugmyndir.
„Við erum öll alveg gífurlega þakklát fyrir viðbrögðin sem við höfum fengið, það var opnað fyrir umsóknir í síðustu viku, svo þetta fer vel af stað, við viljum hvetja alla til að koma sinni hugmynd á framfæri, sama hver hún er,“ segir Orri, þakklátur.
Hægt er að styrka málefnið með því að leggja inn á reikning samtakanna.
„Reikningsnúmerið er 528-14-404866 og kennitalan 561216-0530. Svo erum við í því að finna upp á skemmtilegum verkefnum til að efla sjóðinn áður en úthlutað verður úr honum í júní. Við byrjuðum með SMS-leik og núna erum við með í símasölu fallega nælu sem hönnuð var af Rakel Tómasdóttur og Gabríel Bachmann en hún verður einnig fáanleg í verslunum fljótlega,“ segir Orri.