Innlent

Fjársvikamálið: Dómarnir skilorðsbundnir vegna „stórfellds og ámælisverðs dráttar“ við meðferð málsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá meðferð málsins fyrir dómstólum.
Frá meðferð málsins fyrir dómstólum. vísir/eyþór
Dómar yfir átta einstaklingum sem ákærðir voru fyrir aðild að einu umfangsmesta fjársvikamáli sem komið hefur upp hér á landi voru allir skilorðsbundnir vegna „stórfellds og ámælisverðs dráttar“ við meðferð málsins, eins og það er orðað í dómi Héraðsdóms Reykjaness. Vísir hefur dóminn undir höndum en hann hefur ekki enn verið birtur opinberlega á vef dómstólanna.

Þyngsta dóminn hlaut Halldór Jörgen Gunnarsson en hann var fundinn sekur um fjársvik í opinberu starfi og peningaþvætti. Hlaut hann fjögurra ára fangelsisdóm, skilorðsbundinn til þriggja ára, en sem starfsmaður Ríkisskattstjóra samþykkti Halldór tilhæfulausar virðisaukaskattskýrslur og leiðréttingarskýrslu með innskatti sem endurgreiðslur hárra fjárhæða úr ríkissjóði inn á bankareikning tveggja einkahlutafélaga, samtals rúmlega 277 milljónir króna.

Ákærðu ekki kennt um dráttinn á meðferð málsins

Brotin voru framin á tímabilinu frá október 2009 til júlí 2010 en rannsókn málsins hófst í september það ár. Í dómi héraðsdóms er málsmeðferðin svo rakin en þar segir að skýrslum lögreglu af ákærðu og vitnum hafi að mestu verið lokið í ársbyrjun 2011. Skýrsla af einu vitni hafi verið tekin í janúar 2012 og var unnið að gagnaöflun á árinu 2010, 2013 og 2014 en um var að ræða skýrslur sem unnar voru við embætti skattrannsóknarstjóra.

Rannsóknargögn málsins bárust ákæruvaldinu þann 30. júní 2014, tæpum fjórum árum eftir að rannsókn hófst, en ákæra var ekki gefin út fyrr en þann 14. mars í fyrra, að tæpum tveimur árum liðnum frá því ákæruvaldið fékk gögn málsins í hendurnar.

„Af þessu er óhjákvæmilegt að draga aðra ályktun en þá að rannsókn málsins hafi ekki verið fram haldið með viðhlítandi hætti og nokkrum sinnum á árunum 2011, 2012 og 2013 hafi orðið hlé á rannsókn málsins án þess þó að rannsóknin hafi beinlínis stöðvast um lengri tíma hjá lögreglu. Þá liggur fyrir að eftir að málið barst ákæruvaldinu í lok júní 2014 liðu tæp tvö ár þangað til ákæra var gefin út. Verður ákærðu á engan hátt kennt um þennan stórfellda drátt á meðferð málsins hjá lögreglu,“ segir orðrétt í dómi héraðsdóms.

Hvorki í samræmi við stjórnarskrána né Mannréttindasáttmála Evrópu

Er það mat dómsins að málsmeðferðin öll sé í miklu ósamræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar annars vegar og hins vegar ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.

Vegna dráttarins sem varð við málsmeðferðina þykir héraðsdómi því rétt að skilorðsbinda alla dómana, þrátt fyrir að brot ákærðu séu alvarleg og dómarnir þungir, eða eins og segir í dómnum:

„Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949 má ákveða í dómi að fresta fullnustu refsingar um tiltekinn tíma með skilyrðum sem eru tilgreind í 3. mgr. greinarinnar. Þegar brot eru alvarleg og löng refsivist er ákveðin er heimild til skilorðsbindingar alla jafna beitt af varúð. Það er dómstóla að ákveða skilorðsbindingu og eru engar skorður reistar við skilorðsbindingu að því er tekur til tegundar brots eða lengdar refsivistar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×