Innlent

Segir vinnubrögð yfirvalda til háborinnar skammar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sema Erla Serdar segir með ólíkindum að vinnubrögð yfirvalda hafi valdið því að ákæra á hendur Péturs Gunnlaugssyni væri vísað frá.
Sema Erla Serdar segir með ólíkindum að vinnubrögð yfirvalda hafi valdið því að ákæra á hendur Péturs Gunnlaugssyni væri vísað frá. Vísir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun kæra frávísun ákæru um hatursorðræðu til Hæstaréttar. Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í morgun frá dómi ákæru lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hendur útvarpsmanninum Pétri Gunnlaugssyni á Útvarpi Sögu.

Pétur var ákærður fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs fyrir ummæli sín og hlustenda í þættinum Línan er laus. Dómara þótti ummælin sem vísað var til í ákærunni mjög almenns eðlis. Jafnframt sagði í úrskurðinum að ákæran væri óglögg og erfitt væri að átta sig á hver af ummælunum ættu að teljast saknæm.

Greint er frá því á vef RÚV að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi kært frávísunina til Hæstaréttar. Það verður því niðurstaða Hæstaréttar sem ræður því hvort fjallað verður efnislega um ákæruna eða ekki.

Sjá einnig: Ákæru á hendur Pétri á Sögu vegna hatursorðræðu vísað frá dómi



Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi, segir það með ólíkindum að léleg vinnubrögð yfirvalda valdi því að ákæra fyrir hatursorðræðu sé felld niður.

„Að ekki hafi verið unnið betur að ákærunni er til háborinnar skammar og mun án efa setja sitt mark á baráttuna gegn þessu stórhættulega samfélagsmeini. Takk fyrir ekkert. Þeir sem fagna því að málið hafi verið látið falla niður gera það á kolröngum forsendum. Hatursorðræða á ekkert skylt við tjáningarfrelsi. Hatursorðræða er andlegt ofbeldi,“ skrifar Sema á Facebook síðu sinni.

Hún segir að hatursorðræða hafi áhrif á og grafi undan rétti annarra til jafnréttis og þess að þurfa ekki að þola mismunun.

„Hún er notuð til þess að niðurlægja einstaklinga, gera lítið úr persónu þeirra og brjóta þá niður. Í hvert skipti sem hatursorðræða er látin óáreitt kostar hún einhvern hluta af þeim sjálfum, sjálfsmynd þeirra og hluta af sálarlífi þeirra. Hatursorðræða elur á fordómum og hatri og er oftast undanfari hatursglæpa. Hún getur ýtt undir þess konar ástand í samfélögum að ákveðnir hópar eru lítilsvirtir og mismunun þeirra almennt viðurkennd. Við þurfum ekki líta langt yfir hafið til þess að finna slík dæmi.“

Hatursorðræða vaxandi vandamál

Sema segir það staðreynd að hatursorðræða fari vaxandi hér á landi og að Útvarp saga verði seint saklaus af því að ýta undir slíka þróun.

„Það er óþarfi að fjölyrða um það. Það sem skiptir máli er að þetta er þróun sem mikilvægt er að sporna gegna og það er mikilvægt að þeir sem búa við daglegt áreiti og ofsóknir vegna uppruna, trúar, menningar, kynþáttar, kynhneigðar eða annarra þátta sem einkennir líf og lífsstíl fólks, geti leitað réttar síns. Það á enginn að þurfa að búa við slíkt og það á enginn rétt á að láta aðra búa við slíkt.“

Að lokum segist Sema vona að dómur falli í minnst einu hatursorðræðumáli svo að fordæmi sé fyrir slíku í dómskerfinu.

„Ég vona að önnur mál séu betur unnin og dómur falli í amk. einu af þessum málum því þá er komið fordæmi fyrir því að andlegt ofbeldi í formi hatursorðræðu verður ekki liðið í samfélaginu okkar og fólk mun hreinlega þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum og skrifum. Það verður kannski til þess að einhverjir hugsi sig tvisvar um áður en þeir fara næst hamförum á lyklaborðinu og spúa hatri og öfgum yfir annað fólk.“

Færslu Semu Erlu má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×