Innlent

Vilja koma á samnorrænum kennitölum

atli ísleifsson skrifar
Stokkhólmur.
Stokkhólmur. Vísir/Getty
Miðjuhópurinn svokallaði í Norðurlandaráði hefur lagt til að Norðurlöndin komi á samnorrænu kennitölukerfi til að auðvelda Norðurlandabúum að búa, starfa eða stunda nám í öðru Norðurlandi.

Tillagan verður til umræðu á janúarfundum Norðurlandaráðs sem nú standa yfir í norsku höfuðborginni Ósló.

Forseti Norðurlandaráðs, hin álenska Britt Lundberg, segir þetta ekki þýða að vilji standi til að afnema ríkisborgararétt fólks, heldur væri litið á þetta sem hreina viðbót. „Þetta myndi veita öllum ríkisborgurum Norðurlandanna sömu réttindi og skyldur í því landi eða sjálfstjórnarsvæðum þar sem þeir búa,“ segir Lundberg í samtali við Aftonbladet.

Tillagan kemur frá þingmönnum úr miðjuhópnum svokallaða þar sem í eru meðal annars þingmenn Framsóknarflokksins og Bjartrar framtíðar.

Verði tillagan samþykkt á fundinum í dag verður málið tekið upp á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í apríl. Þar þarf meirihluti þingmanna að samþykkja málið til að það verði sent til umfjöllunar á þjóðþingum Norðurlanda.

Lundberg segir markmiðið vera að gera Norðurlöndin kraftmeiri og auka hreyfanleika á sameiginlegum markaði aðildarríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×