Innlent

Þurfti að leita oftar en fjórum sinnum að ellefu börnum á árinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Andri Marinó
190 beiðnir bárust til lögregunnar á höfuðborgarsvæðinu á liðnu ári um að leitað yrði að börnum og unglingum. Heildarfjöldi leitarbeiðna var þremur fleiri en í fyrra og einstaklingarnir tveimur fleiri. Kynjahlutfallið var jafnara en árið á undan.

Alls voru einstaklingarnir 84 á bak við beiðnirnar 190, 43 stúlkur og 41 piltur. Í 101 tilfelli fóru börnin heim til sín en í 68 tilfellum á meðferðarheimilið Stuðla. Það 21 skipti sem útaf stendur fóru börnin í tímabundið fóstur, BUGL, Vinakot eða sambærileg úrræði.

Af einstaklingunum 84 voru 53 þeirra nýir, þ.e. ekki hafði verið leitað að þeim áður. Leitað var einu sinni að rétt rúmlega helmingi einstaklinga, eða 47. Leita þurfti oftar en fjórum sinnum að ellefu einstaklingum á árinu. Í tvígang var óskað aðstoðar fjölmiðla við leit og í tvö skipti leitað til björgunarsveita.

Fimm einstaklingar voru með níu leitir eða fleiri en leita þurfti að einum einstaklingi alls fjórtán sinnum á árinu.

Þrjár beiðnir það sem af er ári

Flestar beiðnir komu frá Reykjavík, næst Kópavogi og svo Hafnarfirði. Auk þess var nokkur fjöldi af Suðurnesjum. Nokkur munur er á fjölda beiðna á árstíma á milli ára. Þannig fóru leitarbeiðnir á mánuði í tvígang í 25 á liðnu ári en árið 2015 var mesti fjöldinn í einum mánuði 23 beiðnir. Árið 2016 voru mun fleiri beiðnir frá ágúst til desember en árið 2015 voru fleiri beiðnir fyrri hluta ársins.

Í janúar í fyrra kom fyrsta leitarbeiðnin inn þann 19. janúar en þær voru þegar orðnar þrjár í gær, 2. janúar.

Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur undanfarn rúm tvö ár unnið við leit að týndum börnum og unglingum í fullu starfi hjá lögreglu. Hann upplýsir um tölfræði ársins 2016 í hópi fyrir aðstandendur ungmenna sem leitað er að. 

Rætt var við Guðmund í Íslandi í dag í ársbyrjun í fyrra þar sem hann upplýsti meðal annars að hafa fengið áfall við leit að ellefu ára barni, því yngsta sem hann hafði á þeim tíma leitað að.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×