Erlent

18 látnir eftir flóð í Tælandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Flóðin hafa valdið miklum usla í landinu en venjulega er þurrt á þessum tíma árs.
Flóðin hafa valdið miklum usla í landinu en venjulega er þurrt á þessum tíma árs. Vísir/EPA
Miklar rigningar eru nú víðsvegar í Tælandi með þeim afleiðingum að ár og vötn flæða nú bakka sína. Flóðin eru mannskæð en 18 manns hafa látið lífið auk þess sem þúsundir þorpa eru að mestu undir vatni. Flóðin hafa haft áhrif á líf nærri milljón manns í tíu fylkjum í landinu og herinn hefur verið kallaður út. Guardian greinir frá.

Rigningarnar hafa breytt vegum í ár og drekkt mikilvægu ræktarlandi auk þess sem skólastarf rúmlega 1500 skóla í landinu hefur raskast. Þá hafa 18 manns drukknað vegna flóðanna. Samkvæmt veðurstofu Tælands er talið að þessar miklu rigningar muni halda áfram að minnsta kosti næstu tvo daga.

Herinn hefur verið kallaður út til þess að hjálpa fólki að flýja flóðin sem og að veita þeim tímabundið skjól og útdeila hjálpargögnum, samkvæmt yfirlýsingu frá ríkisstjórn landsins. Herinn hefur meðal annars notast við tvær þyrlur til að koma mat til fólks sem hefur orðið innlyksa í þorpum sínum vegna flóða.

Slíkar rigningar eru óalgengar á þessum tíma árs í Tælandi en þar er allajafna þurrkatímabil í janúar. Á þessum tíma er gífurlegur fjöldi ferðamanna í landinu og hefur veðrið sett strik í reikninginn fyrir hundruði þeirra þar sem flugi hefur verið seinkað og lestar- og strætisvagnaferðir felldar niður.  
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.