Innlent

Lögbann lagt á störf Loga Bergmann hjá Árvakri og Símanum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Logi Bergmann hóf störf hjá Stöð 2 árið 2005.
Logi Bergmann hóf störf hjá Stöð 2 árið 2005.
Lögbann hefur verið lagt á störf Loga Bergmann Eiðssonar hjá Árvakri og Símanum en 365 gerði kröfu um að lögbann yrði sett á vinnu hans hjá fyrirtækjunum þar sem 365 telur Loga brjóta gegn ráðningarsamningi sínum við fyrirtækið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá 365 en tilkynnt var um að Logi hefði hafið störf hjá Árvakri og Símanum í Morgunblaðinu þann 11. október síðastliðinn.

Í tilkynningu 365 segir að Logi hafi sagt upp störfum tveimur dögum fyrr eða þann 9. október síðastliðinn. Sama dag fékk fyrirtækið vitneskju um að Logi hefði ráðið sig til starfa hjá Árvakri en tilkynningu 365 má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

„Mánudaginn 9. október síðastliðinn sagði Logi Bergmann Eiðsson upp störfum hjá 365. Sama dag barst 365 sú vitneskja að Logi Bergmann hefði ráðið sig fyrir uppsögnina til starfa hjá Árvakri hf. og Sjónvarpi Símans hf. Um það var tilkynnt með frétt í Morgunblaðinu 11. október síðastliðinn.

Með þessu braut Logi freklega gegn skyldum sínum á grundvelli ráðningarsamnings við 365, sem kveður á um 12 mánaða uppsagnarfrest og 12 mánaða samkeppnisbann að honum loknum.

365 var því nauðugur sá kostur að krefjast þess hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að lögbann yrði lagt á störf Loga Bergmanns hjá þessum aðilum. Af tillitsemi við Loga var krafa 365 sú að lögbanninu yrði afmarkaður tími til næstu 12 mánaða í stað 24 mánaða, eins og 365 hefði getað gert kröfu um á grundvelli starfssamnings Loga Bergmanns.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur nú fallist á kröfu 365 og sett lögbann á störf Loga Bergmanns hjá Árvakri og Símanum til 31. október 2018. 365 mun í framhaldinu höfða staðfestingarmál á hendur Loga Bergmanni, eins og lög gera ráð fyrir.“

Fréttin hefur verið uppfærð.
Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.