Enski boltinn

Krakkarnir hans Klopp lögðu nýliðana | Sjáðu mörkin

Daniel Sturridge skoraði annað mark Liverpool.
Daniel Sturridge skoraði annað mark Liverpool. vísir/getty
Liverpool vann útisigur á nýliðum Bournemouth, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en bæði mörk Liverpool komu undir lok fyrri hálfleiks.

Jürgen Klopp gerði margar breytingar á liðinu sem vann Dortmund í Evrópudeildinni á fimmtudaginn og fengu margir ungir leikmenn liðsins að spila.

Danny Ward stóð í markinu í stað Simon Mignolet en einnig voru Connor Randall, Brad Smith, Kevin Stewart og Sheyi Ojo allir í byrjunarliðinu.

Roberto Firmino kom Liverpool yfir á 41. mínútu þegar hann fylgdi eftir hælspyrnu Daniel Sturridge en Artur Boruc, markvörður heimamanna, varði skotið beint fyrir fætur Brasilíumannsins, 1-0.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Sturridge svo sjálfur með fallegum skalla en hann átti svo fast skot í slána seinna í leiknum. Staðan 2-0 í hálfleik.

Joshua King gerði síðustu mínútur leiksins spennandi þegar hann skoraði fyrir Bournemouth í uppbótartíma en miðvörðurinn Steve Cook var svo hársbreidd frá því að jafna metin þegar tíu sekúndur voru eftir af uppbótartímanum en skalli hans úr teignum rétt yfir markið. Lokatölur, 2-1.

Liverpool er nú búið að vinna þrjá leiki í röð í öllum keppnum og er taplaust í síðustu fimm leikjum. Liðið er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 51 stig, tveimur stigum frá Evrópusæti og á leik til góða.

Bournemouth er með 41 stig og á sæti víst í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Roberto Firmino kemur Liverpool í 0-1: Daniel Sturridge kemur Liverpool í 0-2: Joshua King minnkar muninn í 1-2:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×