Innlent

Tíu ökumenn af tvöhundruð reyndust ölvaðir

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Tíu ökumenn af tvö hundruð sem stöðvaðir voru í umferðareftirliti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á dögunum reyndust ölvaðir undir stýri. Fylgni er milli góðæris og fjölda slysa þar sem ölvaðir ökumenn koma við sögu. Sérfræðingur hjá Samgöngustofu segir að snúa verði þessari þróun við. Ekkert fjármagn til forvarna er veitt í þennan málaflokk á þessu ári.

Á aðventunni herðir lögreglan umferðareftirlit í þeim tilgangi að ná mögulega ölvuðum ökumönnum úr umferð. Í desembermánuði eykst tíðni ölvunaraksturs en það er vegna þess að mannamót eru fleiri og því fleiri sem eru með áfengi um hönd.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil fækkun umferðarslysa þar sem ölvun kemur við sögu. Þetta kemur fram í gögnum frá lögreglu og Samgöngustofu.

Stefnir í umtalsverða aukningu á slysum vegna ölvunaraksturs

Árið 2008 og fram til 2015 fækkar slösuðum af völdum ölvunaraksturs umtalsvert. Fjöldi þeirra fer á sjö árum úr 117 niður í 26 árið 2015 sem er það lægsta sem sést hefur frá árinu 2002.

„Allt þar til núna á þessu ári að þá á sér stað þróun til verri vegar og reyndar höfum við aldrei séð svona mikla aukningu á einu ári, það er að segja á milli áranna 2015 og þess sem af er árinu 2016,“ segir Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.

Ef fram heldur sem horfir miðað við fyrstu átta mánuði þessa árs þá má búast við því að þrisvar sinnum fleiri slasast af völdum ölvunaraksturs miðað við árið 2015. En það sem af er ári hafa 52 slasast í umferðarslysum það sem ölvaður ökumaður kemur við sögu.

Fimm prósent ökumanna ölvaðir

Á dögunum fékk fréttastofan að fylgja eftir umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem sinnti umferðareftirliti á Skólavörðuholti síðla kvölds á virkum degi.

Á tveggja klukkustunda tímabili þetta kvöld voru allir stöðvaðir sem óku um Skólavörðuholt eða um tvö hundruð ökumenn. Af þessum tvö hundruð reyndust tíu undir áhrifum áfengis. Það eru fimm prósent.

Það sem af er ári hefur lögreglan tekið tæplega sautjánhundruð ökumenn sem ekið hafa undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

„Það eru margir sem að halda að það sé í lagi að fara af stað eftir neyslu eins glas, tveggja glasa, það sé allir í lagi. Ég finn ekkert svo mikið á mér er svona hugsunin og ég er að fara svo stutta leið. Þetta er oft hugsunin. En þetta eru allt hugsanir sem að margir þeirra bera þær byrgðar þegar þeir voru að aka sína leið að hafa valdið slysum og banaslysum,“ segir Einar Magnús.

„Þetta er af stórum hluta venjulegt fólk sem er að koma sér í þessar aðstæður er varðar ölvunarakstur,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri í Umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Engu fjármagni varið í forvarnir gegn ölvunarakstri

Í kjölfar hrunsins 2008 hefur mikið dregið úr forvörnum vegna ölvunaraksturs og er því þannig komið við að engu fjármagni var varið í málaflokkinn á þessu ári. Stærsti áhættuhópurinn og þeir sem valda flestum slysum undir áfrifum áfengis eru ökumenn á aldrinum 17-21 árs sem einnig er sá hópur sem best er að hafa áhrif á.

„Það er oft erfiðara kannski að eiga við þá sem eru orðnir eldri. Þá oft sökum þess að ef að menn hafa þróað með sér alkóhólisma, þá er þetta orðið svona í rauninni sjúklegt ástand sem er erfiðara að eiga við. Það þarf að laga ákveðna aðra hluti áður en þú getur haft áhrif á hugarfar viðkomandi hvað þetta varðar. En það er auðveldara með unga fólkið sem enn þá sem er kannski ekki komið í þessa klafa ofneyslu áfengis nema þá í undantekningar tilfellum. Og það má ekki misskilja mig, það er í góðu lagi að menn neyti áfengis svo lengi sem það skaði engan. Það er strax orðinn skaði um leið og þú sest undir stýri og ekur af stað og tekur áhættuna með því að hvort að þú komist mögulega heill heim. Vegna þess að líkurnar á því að þú valdir slysi eru svoleiðis margfalt margfalt meiri verandi undir áhrifum áfengis og það þarf of lítið til,“ segir Einar Magnús.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa er í öllum tilfellum kölluð til þegar alvarlegt slys eða banaslys hefur orðið. Rannsóknarstjóri hjá nefndinni hefur margoft þurft að horfa upp á ökumann takast á við afleiðingar gjörða sinna.

„Þegar kemur að þessum orsökum þar sem ökumenn, mögulega vísvitandi, eru að brjóta umferðarlögin eins og til dæmis að aka undir áhrifum áfengis að þrátt fyrir umræðu sem hefur verið um ölvunarakstur. Við vitum að ölvunarakstur er hættulegur. Við vitum að þeir sem að neyta áfengis þeir eru ekki í ástandi til þess að aka og eru ekki öruggir ökumenn. Þegar að fólk veldur slysum undir áhrifum áfengis að þá kemur þessu spurning upp, hvað var viðkomandi að hugsa? Orsakirnar eru misslysalegar skulum við segja. Það sem við höfum séð í slysum þar sem að ölvun kemur við sögu er að það er oft samhengi á milli þess að aka ölvaður og sofna undir stýri en líka þetta kæruleysi sem að verður að fólk notar ekki bílbelti og þannig er að það grunur um ölvunarakstur í fleiri banaslysum í ár heldur en hefur verið undanfarin ár,“ segir Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri umferðarslysasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Samgöngustofa og lögreglan leggja ríka áherslu á það að til að koma í veg fyrir ölvunarakstur er að fela bíllykla eða tala til ökumann sem ætlar sér að aka ölvaður.

„Ef að það tekst ekki þá skulum við gera annað sem að undirstrikar kannski mest væntumþykju okkar fyrir viðkomandi og það er þegar öll önnur ráð eru úti að það er að hringja í lögregluna í einn-einn-tveir. Og láta vita af því að viðkomandi sé að fara af stað sem væri mun skárra en það að viðkomandi sé farinn af stað. Vegna þess að afleiðingarnar af því eru svo lítilvægar í samanburði við afleiðingarnar af ölvunarakstri,“ segir Einar Magnús.

Margir í tilfinningalegu ójafnvægi

Rannsóknarstjóri Rannsóknarnefndar samgönguslysa vann að rannsókn um hegðun ölvaðra ökumanna og þá hugsun að ákveða að setjast undir stýri undir áhrifum áfengis. Í rannsókninni kom fram að margir af þeim ökumönnum sem viðtöl voru tekin við voru í tilfinningalegu ójafnvægi.

„Ég spurði ökumenn til að mynda að því hvort þeir hefðu velt fyrir sér að þeir yrðu teknir af lögreglunni. Það kom ekki sterkt fram. Eins að valda slysum var eitthvað sem ökumenn voru ekki að hugsa um. En það sem að var meira um vert er að fólk velti fyrir sér hvað aðrir myndu segja. Fjölskylda, kunningjarnir, vinirnir og vinnufélagarnir ef að þeir myndu nást undir áhrifum áfengis.

Öll banaslys í umferðinni eru erfið en þessi slys eru markerandi bæði fyrir ökumenn og fjölskyldur þeirra og þetta er eitthvað sem er alls ekki hægt að fyrirgefa eða er erfitt að fyrirgefa og ökumenn sem að valda slysum undir áhrifum áfengis eiga erfitt með að lifa með það sem eftir er,“ segir Ágúst.


Tengdar fréttir

Slysum vegna ölvunar snarfjölgar í góðærinu

Slysum vegna ölvunaraksturs hefur fjölgað gríðarlega á þessu ári og stefnir í 200% fjölgun milli ára. Fylgni er á milli góðæris og fjölda slysa – þau eru mun algengari þegar uppgangur er í samfélaginu. Dregið mjög úr forvörnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×