Enski boltinn

Svissneska alríkislögreglan réðst inn í höfuðstöðvar UEFA

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Gianni Infantino skrifaði undir samninginn.
Gianni Infantino skrifaði undir samninginn. vísir/getty
Svissneska alríkislögreglan heimsótti höfuðstöðvar Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, í dag með heimild þess efnis að fá að sjá samninginn sem fannst í Panama-skjölunum.

Fram kemur í Panama-skjölunum að UEFA gerði samning við fyrirtæki sem var með höfuðstöðvar sínar á Niue, lítilli eyju í Suður-Kyrrahafi, fyrir áratug síðan um sýningaréttinn á Meistaradeild Evrópu í Ekvador.

Sjá einnig:Infantino brugðið og harðneitar sök

Félagið sem keypti réttinn, Cross Trading, borgaði 11 þúsund dollara fyrir réttinn og seldi svo hann strax áfram fyrir 311 þúsund dollara. Samningur UEFA við Cross Trading og fjölmiðlafyrirtækið Teleamazonas er eitthvað sem svissnesk yfirvöld vilja skoða betur.

„UEFA getur staðfest að í dag fengum við heimsókn frá svissnesku alríkislögreglunni sem, undir heimild, bað um að fá að sjá samningina sem UEFA og Cross Trading/Teleamazonas gerðu sín á milli. Að sjálfsögðu mun UEFA afhenda alríkislögreglunni öll gögn sem við höfum undir okkar höndum og hjálpa til eins og við getum.“

UEFA segir að samningurinn hafi ekki verið óeðlilegur og að það hefði ekki vitað af ætlun Cross Trading um að selja réttinn áfram. Cross Trading hafi einfaldlega gert besta tilboðið í réttinn og taldi UEFA enga ástæðu til að draga í efa að eitthvað grunsamlegt væru við viðskiptin.

Gianni Infantino, nýkjörinn forseti FIFA, skrifaði undir samninginn fyrir hönd UEFA á sínum tíma en segist ekkert hafa gert rangt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×