Innlent

Guðni Th. afþakkar forsetafylgd úr landi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Að ósk forseta Íslands hefur sá siður að handhafi forsetavalds fylgi forseta úr landi verið lagður niður.
Að ósk forseta Íslands hefur sá siður að handhafi forsetavalds fylgi forseta úr landi verið lagður niður. Vísir/Eyþór
Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands frá 1996 til 2016, var fylgt til og frá Keflavíkurflugvelli af handhafa forsetavalds 45 sinnum á árunum 2012 til 2016. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar.

Brynhildur spurði einnig hvort enn tíðkaðist að handhafar forsetavalds fylgdu forseta Íslands til og frá Keflavíkurflugvelli vegna ferða hans til og frá landinu og handsali gjörninginn þannig að forsetavaldið færist á milli forseta og handhafanna með handabandi.

Í svari forsætisráðherra kemur fram Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi óskað eftir því að siðurinn yrði lagður niður. Því hafi verið ákveðið að leggja af þá venju að einn af handhöfum forsetavalds fylgi forseta til og frá Keflavíkurflugvelli þegar hann fer utan í embættiserindum.

Handhafar forsetavaldsins í fjarveru forseta eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar. Athygli vakti árið 2012 þegar greint var frá því að Ólafur Ragnar, þáverandi forseti, hafi á árunum 2010 og 2011 sett sig á móti því að siðurinn skyldi aflagður þegar Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, spurði um afstöðu hans um það.

Í svari forsætisráðherra kemur einnig fram að handhafar forsetavalds hafa ekki fengið greitt sérstaklega fyrir fylgdina.


Tengdar fréttir

Fylgdin þorri allrar vinnu handhafa

Forseti Íslands segir að ef sá siður yrði aflagður að handhafar forsetavalds fylgi forsetanum til og frá Leifsstöð þá væri jafnframt búið að afnema nánast allt vinnuframlag þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×