Innlent

Ívar í Rúmfatalagernum: „Stefna okkar að vera alltaf fyrst með jólin“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Það er alltaf fjör í kringum Ívar.
Það er alltaf fjör í kringum Ívar. mynd/ívar þórður
Rúmfatalagerinn fylgir stefnu sinni í ár líkt og undanfarin ár og hefur dregið fram jólavörur síðasta árs. Nýju vörurnar verða settar upp í næsta mánuði, að sögn Ívars Þórðar Ívarssonar, verslunarstjóra í Korputorgi.

„Það er stefna okkar að vera alltaf fyrst með jólin. Við setjum „gömlu jólin“ upp í september með góðum afslætti, 30 til 50 prósent, og nýju vörurnar mánuði síðar, eða 15. október,“ segir Ívar í samtali við Vísi.

Ívar segir fólk almennt ánægt með jólastemninguna á þessum tíma árs, þó að vissulega fussi einhverjir og sveii. „Kúnnarnir eru mjög sáttir. Það er einn og einn sem segir eitthvað við þessu en vanalega eru það þeir sem enda á að kaupa mest.“

Aðspurður segir hann verslanir Rúmfatalagersins fylgja þeirri reglu að taka jólaskrautið niður á þrettándanum. „Það er misjafnt en það er eiginlega allt farið á þrettándanum. En þótt ótrúlegt megi virðast þá er fólk að koma til okkur alveg fram að því að kaupa jóladót,“ segir Ívar. Hann segir að jólaskrautið sé að finna í öllum verslunum Rúmfatalagersins, nema á Selfossi og Granda.

Vísir veit ekki til þess að fleiri verslanir séu búnar að taka upp jólaskrautið. Samkvæmt upplýsingum frá Smáralind og Kringlunni má búast við að jólaskreytingar verði komnar upp og jólalög taki að óma í byrjun nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×