Innlent

Borga net og síma en fá ekki að vita notkunina

Sveinn Arnarson skrifar
Togari Samherja við festar í Akureyrarhöfn.
Togari Samherja við festar í Akureyrarhöfn. vísir/sveinn
Sjómenn Samherja eru ósáttir við fyrirkomulag greiðslna sinna til fyrirtækisins vegna fjarskiptakostnaðar þegar þeir eru á hafi úti.

Á launaseðlum sjómannanna er settur upp kostnaður við fjarskipti án þess að þeir fái að sjá sundurliðun notkunar sinnar. Fyrirtækið hefur neitað að svara fyrirspurn Fréttablaðsins hvernig þessum málum er háttað.

Sjómenn Samherja greiða fyrir þann kostnað sem hlýst af fjarskiptum þeirra meðan þeir eru á hafi úti. Bæði símasamband við fastalandið sem og internettengingu greiða sjómenn sjálfir. Voru menn að greiða upp undir fjörutíu þúsund krónur í einum túr fyrir síma og net. Það sem þeir eru hins vegar ósáttir við er að þeir fá ekki að sjá sundurliðun á notkun sinni. Samherji rukkar fyrir afnotin með því að taka af launum sjómanna við útborgun.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir sambandið hafa farið í herferð í fyrra einmitt vegna fjarskiptakostnaðar sjómanna á hafi úti.

Valmundur Valmundsson
„Sumstaðar var það þannig að kostnaði við fjarskipti skipsins var bara deilt á áhöfnina og allir greiddu sama verðið óháð því hversu mikið sjómaður nýtti sér þjónustuna. Búið er að taka fyrir svoleiðis og þetta ætti að vera komið í lag á flestum stöðum,“ segir Valmundur. „Við viljum auðvitað og það á að vera þannig að sjómenn eiga að geta séð notkun sína.“

Valmundur segir sum fyrirtæki hafa þann háttinn á að veita sjómönnum sínum þessa þjónustu þeim að kostnaðarlausu.

Fréttablaðið sendi Samherja fyrirspurn um hvernig sjómenn greiði fyrir fjarskipti sín meðan þeir eru á hafi úti, hvort þeir geti fengið að sjá útskrift af notkun sinni með launaseðlum sínum og af hvaða fjarskiptafyrirtæki Samherji keypti þjónustu sína.

Anna María Kristinsdóttir, starfsmannastjóri Samherja, svaraði fyrir hönd fyrirtækisins á þá leið að þessar upplýsingar væru milli fyrirtækisins og starfsmanna og því myndi Samherji ekki gefa Fréttablaðinu umbeðnar upplýsingar.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×