Erlent

Salah Abdeslam ákærður fyrir aðild sína að hryðjuverkunum í París

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Abdeslam er í haldi lögreglu í Brussel. Sýnir hann samstarfsvilja en vill ekki verða framseldur til Frakklands.
Abdeslam er í haldi lögreglu í Brussel. Sýnir hann samstarfsvilja en vill ekki verða framseldur til Frakklands. Vísir/EPA
Salah Abdeslam, sem grunaður er um að vera einn af höfuðpaurum hryðjuverkaárásanna í París, hefur verið formlega ákærður fyrir aðild sína að árásunum.

Abdeslam er í haldi yfirvalda í Belgíu. Segir lögfræðingur hans að Abdeslam sýni samstarfsvilja í kjölfar þess að hann var handsamaður í aðgerðum lögreglu í Brussel í gær. Vonast yfirvöld í Belgíu og Frakklandi til þess að hann muni varpa ljósi á árásirnar í París og undirbúning þeirra.

Sjá einnig: Á flótta undan ISIS og yfirvöldum: Hver er Salah Abdeslam og hvað gerði hann?

Hryðjuverkasamtökin ISIS lýstu yfir ábyrgð sinni á hryðjuverkunum í París þar sem 130 létust og tugir slösuðust. Er einnig vonast til þess að Abdeslam geti gefið upplýsingar um það hvernig hryðjuverkasellur ISIS starfi, fjármagni sig og hverjar séu fyrirætlanir þeirra.

Francois Hollande Frakklandsforseti hefur gefið út að frönsk yfirvöld vilji að Abdeslam verði framseldur til Frakklands hið snarasta en að sögn lögfræðings Abdeslam vill skjólstæðingur sinn ekki verða framseldur til Frakklands.

Sjá einnig: Dramatískt myndband af handtöku lögreglu í Brussel

Líklegt þykir að Abdeslam hafi átt að taka þátt í árásunum í París en guggnað og flúið til Belgíu þar sem hann var handtekinn í gær eftir fjóra mánuðu á flótta.

Europol hvatti Evrópuríki til þess að auka gæslu á landamærum sínum. Telur stofnunin líklegt að fleiri vitorðsmenn Abdeslam og félaga muni reyna að flýja Evrópu eftir handtöku Abdeslam.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.