Innlent

Lyf lækka í verði vegna styrkingar krónunnar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lyfjaverð hefur lækkað um tugi prósenta samfara styrkingu krónunnar. Meðallækkun tíu söluhæstu lyfja er meira en 30 prósent frá árinu 2009.

Frá árunum 2012 og 2013 hefur lyfjaverð almennt lækkað um rúmlega 20 prósent að sögn framkvæmdarstjóra samtaka frumlyfjaframleiðenda. Heildsöluverð eins söluhæsta astmalyfs hefur til að mynda lækkað um ríflega 40 prósent frá árinu 2009.

Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdarstjóri Frumtaka, segir gengisþróun krónunnar vera helstu ástæðu lækkunarinnar.

„Nú höfum við verið að sjá það að krónan hefur verið að styrkjast verulega og þá hefur það gerst sjálfkrafa á lyfjaverð hefur lækkað,“ segir Jakob.

Verð lyfja er fasttengt gengisþróun krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og ákveðið af lyfjagreiðslunefnd.

„Þannig um hver mánaðamót eftir því hvernig krónan styrkist eða veikist þá breytist verðið á lyfjunum og þess vegna hefur verið lækkað um tugi prósenta undanfarin misseri.“

Jakob segir fulla ástæðu til að fagna verðþróun síðustu missera enda sé um að ræða upphæðir sem geti skipt fólk miklu máli. „Þetta eru mjög jákvæðar fréttir fyrir almenning og líka fyrir hið opinbera. Það er augljós sparnaður fyrir okkur öll sem samfélag að fá lyfin á betra verði,“ segir Jakob.

Jakob segir að nú myndist svigrúm til að fjárfesta í nýjum lyfjum. Hið opinbera hafi nú meira á milli handanna í lyfjakaup.

„Þarna myndast svigrúm til að fjárfesta í nýjum lyfjum,“ segir Jakob Falur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×