Enski boltinn

Svona eru sigurlíkur Leicester í öllum leikjunum sem liðið á eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danny Drinkwater, Jamie Vardy, Danny Simpson og Riyad Mahrez fagna einu marka Leicester City á tímabilinu.
Danny Drinkwater, Jamie Vardy, Danny Simpson og Riyad Mahrez fagna einu marka Leicester City á tímabilinu. Vísir/Getty
Leicester City er með fimm stiga forystu á Tottenham á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar aðeins sjö umferðir eru eftir. Bandaríski íþróttafjölmiðillinn ESPN hefur nú reiknað út líkurnar á því að Leicester verði enskur meistari í fyrsta sinn.

Leicester City hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum með markatölunni 1-0 og liðið fær Southampton í heimsókn um helgina.

Töluspekingar reiknuðu ekki aðeins líkurnar á meistaratitlinum heldur einnig líkurnar á sigri í þeim sjö leikjum sem Leicester-liðið á eftir.

Erfiðustu leikir Leicester í síðustu sjö umferðunum verða samkvæmt þessu leikir liðsins á Old Trafford (27 prósent sigurlíkur) og Stamford Bridge (24 prósent sigurlíkur).

Leicster City er reyndar með aðeins meira en fimmtíu prósent sigurlíkur í tveimur leikjum eða á heimavelli á móti West Ham (51 prósent líkur á sigri Leicester) og Swansea (59 prósent).

Lecester vantar 17 stig í viðbót til að tryggja sér titilinn en það er 21 stig eftir í pottinum.

Leicester City er öruggt með að lenda í einu af þremur efstu sætunum en sjö önnur lið eiga möguleika á Meistaradeildarsæti. Það eru Tottenham (98 prósent líkur), Arsenal (93 prósent), Manchester City(56 prósent), Manchester United (30 prósent), West Ham (17 prósent), Liverpool (3 prósent) og Southampton (1 prósent).



Sigurlíkur Leicester City í síðustu sjö leikjunum:

Heima á móti Southampton - 47 prósent

Úti á móti Sunderland - 44 prósent

Heima á móti West Ham - 51 prósent

Heima á móti Swansea - 59 prósent

Úti á móti Manchester United - 27 prósent

Heima á móti Everton - 49 prósent

Úti á móti Chelsea - 24 prósent

Líkur á liðin verði Englandsmeistari 2016:

Leicester City 77,9 prósent

Tottenham 17 prósent

Arsenal 4,7 prósent

Manchester City 0,3 prósent



Það er hægt að sjá alla samantekt ESPN með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×