Innlent

Vöknuðu af værum blundi við lúðraþyt

Ingvar Haraldsson skrifar
Koningsdam lá við akkeri skammt fyrir utan Ísafjarðarhöfn en hélt á brott síðdegis í gær.
Koningsdam lá við akkeri skammt fyrir utan Ísafjarðarhöfn en hélt á brott síðdegis í gær. mynd/guðmundur m. kristjánsson
Fjölmargir Ísfirðingar hrukku upp með andfælum skömmu fyrir klukkan sjö í gærmorgun þegar þokulúðrar skemmtiferðaskipsins Koningsdam glumdu í Skutulsfirði. Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafnar, sagði svartaþoku hafa verið yfir firðinum og því hafi skipverjar orðið, reglum samkvæmt, að láta vita af sér. Því voru þokulúðrar skipsins, þeyttir með tveimur löngum flautum á tveggja mínútna fresti fram til hádegis þegar þokunni létti. Koningsdam lá við akkeri skammt fyrir utan höfnina.

Guðmundur bætti við að margir bæjarbúar hefðu hringt í morgunsárið og viljað vita hvað gengi á, missáttir eins og við mátti búast.

„Einhverjir morgunfúlir hringdu, sumir brjálaðir, aðrir kurteisir og sýndu þessu fullan skilning,“ segir Guðmundur. Þá hafi meirihluti bæjarbúa tekið flautinu með ró.

Guðmundur M. Kristjánsson
Hafnarstjórinn sagði lund hinna morgunfúlu hafa lést eftir að þokunni létti og sól tók að skína. „Það er bongóblíða og sólskin, allir glaðir núna, skælbrosandi út í eitt í sólinni. Allar götur fullar af fólki, þetta er rosa flottur dagur núna,“ sagði Guðmundur um þrjú leytið í gær. „Við sjáum kannski eftir níu mánuði hverjir notuðu þetta til að ná smá skoti fyrir vinnutímann,“ bætir hann glettinn við. „Það er það sem okkur vantar á Ísafirði, fleiri íbúa.“

Guðmundur sagði sambærileg atvik hafi gerst áður en nú hafi verið lygnara en oft áður. „Þá glymur í fjöllunum. Kannski var bergmálið í morgun meira en oft áður. Það gerist mjög sjaldan á ári að við fáum fjörðinn svona fullan af þoku.“

Koningsdam, sem er 293 metra langt og um hundrað þúsund tonn, hélt úr Skutulsfirðinum um fimm í gær og á að koma að landi á Akureyri í dag.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×