Innlent

Tveggja manna leitað sem mögulega féllu í Svarfaðardalsá

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þeir sem hafa upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Dalvík í síma 444-2865 eða í síma 112.
Þeir sem hafa upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Dalvík í síma 444-2865 eða í síma 112. Vísir/Pjetur
Björgunarsveitar- og lögreglumenn á Dalvík voru kallaðir út í kvöld eftir að vegfarandi lét vita af því að hann hefði séð tveimur mönnum kastað úr bíl á brúnni yfir Svarfaðardalsá, sunnan Dalvíkur. Samkvæmt vegfarandanum lenti annar maðurinn hugsanlega í ánni. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Þegar ábendingin barst fór lögregla þegar á staðinn og einnig voru björgunarsveitarmenn kallaðir til aðstoðar. Nú, þegar klukkan er rétt rúmlega þrjú, eru björgunarsveitarmenn á léttabátum að kemba ána og árbakkana. Mennirnir tveir hafa ekki fundist. 

Fiskidagurinn mikli fór fram á Dalvík í gær en tilkynning um atvikið barst lögreglu skömmu eftir að bryggjusöng og flugeldasýningu lauk. 

Samkvæmt tilkynningunni var umrædd bifreið grænleitur jeppi sem ekið var áleiðis til Dalvíkur og síðan beygt inn Svarfaðardalsveg. Hafi einhver upplýsingar um bifreiðina eða farþegana tvo er þeim tilmælum beint til fólks að hafa strax samband við lögregluna á Dalvík í síma 444-2865 eða í síma Neyðarlínunnar, 112.

*Uppfært* Mennirnir komu í leitirnar fljótlega eftir að tilkynning um leitina var gefin út af lögreglu. Í ljós kom að þeir höfðu gert sér það að leik að stökkva í ána, komið sér sjálfir upp og haldið til Akureyrar. Varð þeim ekki meint af.


Tengdar fréttir

Léku sér að því að fara í ána

Fjölmennt lið lögreglu og björgunarsveitarmanna var kallað út vegna tveggja manna er kastað höfðu sér út í Svarfaðardalsá við Dalvík í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×