Sears er þjálfari hinnar serbnesku Önu Ivanovic og var að horfa á hana spila á mótinu þegar hann hneig skyndilega niður í áhorfendastúkunni. Hann var fluttur á brott í sjúkrabíl og þurfti að gera hlé á viðureigninni á meðan.
Samtímis var Murray að spila og fékk hann ekki fregnir af þessu fyrr en að henni lokinni.
„Ég held að ég hafi ekki verið úrvinda eða reyna of mikið á mig,“ sagði Sears í viðtali við breska fjölmiðla. „Ég veit að þetta var mikið í fréttum hér heima en þetta var virkilega skrýtið allt saman og mér þykir leitt að hafa valdið fólki óþarfa áhyggjum.“

Enn er ekki vitað með fullvissu hvað olli því að Sears hneig niður en sjálfur telur hann að um matareitrun hafi verið að ræða.
„Ég hafði borðað sushi tíu daga í röð í Melbourne og mér leið vel. En ætli líkurnar séu ekki á því að maður fái einn slæman fiskbita þegar maður borðar svo mikið af sushi.“
Dóttir Sears, Kim, var ólétt þegar atvikið átti sér stað en hún eignaðist dóttur fyrir stuttu síðan. Ivanovic var að keppa við hina bandarísku Madison Keyes þegar þjálfari hennar hneig niður og tapaði viðureigninni eftir að hafa unnið fyrsta settið.