Innlent

Saurgerlamengað neysluvatn: Bæjarstjórinn ekki hissa á að þetta komi illa við Flateyringa

Anton Egilsson skrifar
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að bæjaryfirvöld geti dregið lærdóm af málinu.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að bæjaryfirvöld geti dregið lærdóm af málinu. Vísir/Pjetur
Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segist vita að Flateyringar séu ósáttir með að hafa ekki fengið upplýsingar um saurgerlamengun í neysluvatni í bænum.

Vissu um mengunina í 16 daga

Í frétt bb.is í dag segir að bæði Ísafjarðarbær og Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hafi vitað af saurgerlamenguðu neysluvatni Flateyrar í 16 daga án þess að upplýsa íbúa um málið. Sýni voru tekin úr vatni hjá Bakkabúðinni á Flateyri þann 31. ágúst og reyndust þau menguð, en þau innihéldu bæði E.coli og kólígerla. Var bæjaryfirvöldum á Ísafirði og Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða tilkynnt um mengunina daginn eftir. 

Í reglugerð um neysluvatn eru tiltekin viðbrögð við menguðu neysluvatni, ef E.coli eða koligerlar greinist í neysluvatni skal tafarlaust veita neytendum upplýsingar og ráðgjöf. 

Þá var annað sýni tekið tólf dögum síðar eða þann 12. september og var niðurstaða rannsóknar á því kynnt Ísafjarðarbæ og Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða daginn eftir. Það sýni sýndi talsvert meiri mengun en var í sýninu frá 31.ágúst en þrátt fyrir það brást Ísafjarðarbær ekki við tilkynningaskyldu sinni.

Mistökin verða í skilboðum innanhúss

Aðspurður hvers vegna bæjarbúar á Flateyri voru ekki upplýstir um málið strax og það kom upp segir Gísli Halldór:

„Það verða einhver mistök í afgreiðslu á þessum upplýsingum þegar þær berast í síðustu viku. Mistökin verða í skilaboðum innanhús þannig að það er ekki gripið til þeirra aðgerða að lagfæra geislunarbúnaðinn. Það hefðu í rauninni átt að vera fyrstu viðbrögðin, því um leið og það er búið er mengunin úr sögunni.“ 

Hann segir að það hefði jafnframt verið eðlilegt að upplýsa íbúa um leið að þetta hefði sér stað og búið væri að koma í veg fyrir mengunina. Það hafi sett strik í reikninginn að þessar upplýsingar hafi ekki farið sína leið og að ekki hafi verið gripið til nauðsynlegra aðgerða í kjölfarið.

Menn hafi hugsanlega verið of værukærir

Gísli segist ekki vita nákvæmlega hverju sé um að kenna en mistökin geti hafa stafað að ýmsum ástæðum.

„Að einhverju leyti stafar þetta hugsanlega af mannabreytingum en hins vegar því að þetta hefur verið í góðu lagi frá árinu 2009 að undanskildum einhverjum hnökrum sem komu upp í desembermánuði 2012. Það er því spurning hvort menn hafi verið orðnir of værukærir. Þetta gefur okkur allavega tilefni til þess að endurbæta ferla.“

Veit að Flateyringar eru miður sín

Spurður að því hvort hann hafi orðið var við mikla óánægju Flateyringa með vinnubrögð Ísafjarðarbæjar í þessu máli segir hann:

„Ég veit að Flateyringar eru auðvitað miður sin yfir þessu því að þeir hafa ekki fengið neinar upplýsingar, aðeins fréttir um að vatnið væri mengað. Þeir hafi því ekki vitað sína stöðu og líður auðvitað illa með það að vita í raun og veru ekki hvort þeir geti treyst neysluvatninu. Ég er því ekki hissa á að þetta komi illa við fólk á Flateyri.““segir Gísli og bætir við að bæjaryfirvöld geti dregið af þessu lærdóm.

Gísli hefur sent út tilkynningu vegna málsins en hana má lesa í heild sinni að neðan:

Geislunartæki fyrir neysluvatn á Flateyri voru sett í gang í hádeginu föstudaginn 16. september og engar líkur eiga að vera á að e-coli mengun sé til staðar í neysluvatninu eftir það. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða tók sýni um helgina og ættu niðurstöður að staðfesta að mengun sé úr sögunni en þær munu liggja fyrir á morgun, 20. september. Neysluvatn hefur annars verið í lagi á Flateyri frá árinu 2009 og staðist mælingar, að undanskildum hnökrum sem upp komu í desember 2012.

Ljóst er að mæling mengunar í neysluvatni þann 30. ágúst og aftur nú 12. september leiddi ekki til þeirra viðbragða og upplýsingagjafar sem nauðsynlegt er að eigi sér stað. Ekki er ljóst hvar skilaboðin misfórust þann 1. september, en ljóst er að viðbrögð Ísafjarðarbæjar þegar upplýsingar bárust í síðustu viku voru ekki eins fumlaus og nauðsynlegt er. Það er til heilla að ekki var um að ræða verulega mengun að þessu sinni, en hinsvegar er mjög alvarlegt að mælingar skyldu ekki leiða til tafarlausra aðgerða. Ísafjarðarbær biðst afsökunar á þessum mistökum. Gripið hefur verið til aðgerða sem ættu að tryggja að þessi mistök endurtaki sig ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×