Innlent

Hyggst hlaupa þrjá kílómetra í tuttugu sentimetra pinnahælum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Móðir langveikrar stúlku ætlar ekki að reima á sig hlaupaskóna í Reykjavíkurmaraþoninu eins og flestir, heldur hefur hún ákveðið að hlaupa þrjá kílómetra í tuttugu sentímetra pinnahælum fyrir góðan málstað.

Telma Sveinbjarnardóttir er ein fjölmargra sem safna áheitum fyrir Reykjavíkurmaraþonið sem fram fer síðar í mánuðnum.

Heiða Kristín, fjögurra ára dóttir hennar, er sú eina sem greinst hefur með Golz syndrome hér á landi. Það er sjaldgæft húðheilkenni sem hefur margvísleg áhrif. Heiða er til að mynda blind á öðru auga og á erfitt með að þyngjast, en hún er aðeins tíu kíló aðþyngd.

Telma segir að samtökin Einstök börn, sem Heiða er hluti af, hafi veitt fjölskyldunni ómetanlegan stuðning. Hún vildi því gera eitthvað sérstakt til að vekja athygli á samtökunum, en starfsemin þar er öll unnin í sjálfboðavinnu.

„Mér datt þetta í hug þannig að ég ákvað að slá til, að hlaupa á hælum. Þetta eru þrír kílómetrar. Ég hef örugglega gengið lengra á hælum á djamminu eða í Kringlunni þannig að þetta ætti vonandi að vera í lagi,“ segir Telma.

Undirbúningur fyrir hlaupið er í fullum gangi. „Það sem ég hef verið að gera er að fara út að hlaupa í strigaskóm. Svo hef ég verið að taka svona tarnir þar sem ég fer á hælunum í göngutúr með stelpurnar eitthvert. En svo er ég búin að vera frekar mikið á hælum í sumar og er mikið búin að vera á hælum alveg síðan í áttunda bekk. Ég hugsa því að það verði í lagi. Ég er vön.“

Skórnir eru engin smásmíði, tuttugu sentimetra pinnahælar. „Ég er búin að eiga þessa frekar lengi og þeir eru þægilegir. Ég er mjög spennt en ég held að það séu flestir í kringum mig mjög kvíðnir. En ég hlakka bara til að gera þetta,“ segir Telma.

Heita má á Telmu á heimasíðu Reykjavíkurmaraþons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×