Enski boltinn

Van Gaal um viðbrögð Rashford: Já stjóri, þú hefur rétt fyrir þér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, er sérstaklega ánægður með viðhorf unglingsins Marcus Rashford sem hefur slegið í gegn á sínu fyrsta tímabili með aðalliðinu.

Marcus Rashford skoraði annað marka Manchester United í gær þegar liðið komst í undanúrslit enska bikarsins eftir 2-1 sigur á West Ham.

„Hann er mjög einbeittur og ég dáist af honum fyrir það vegna þess að hann er enn svo ungur og það er mikið áreiti á þessa stráka í dag," sagði Louis van Gaal.

„Hann er að skora svo mikilvæg mörk fyrir okkur en hann ræður vel við alla athyglina sem þessu fylgir og hann nær að halda fókus," sagði Van Gaal og ungi framherjinn tekur leiðsögn vel.

„Þegar þú þarft að gagnrýna hans leik þá hefur hann sýnt að hann getur tekið gagnrýni líka. Hann svarar: Já stjóri, þú hefur rétt fyrir þér og ég þarf að gera þetta," sagði Van Gaal og bætir við:

„Það er frábært hjá honum og það eru ekki margir sem taka gagnrýni svona vel," sagði Van Gaal og auðvitað þakkaði hollenski stjórinn sjálfum sér aðeins fyrir markið hans Rashford í gær.

„Þetta var flott mark hjá honum. Ég var fyrir aftan hann á bekknum og sá vel sjónarhornið hans. Ég sá gatið og hornið og öskraði: Skjóttu. Það er auðvitað mun erfiðara að framkvæma það. Þetta var glæsilegt mark og glæsilegur einleikur. Hann hefur þessa hæfileika og ég vil sjá hann rekja boltann meira og skjóta," sagði Van Gaal.

Marcus Rashford hefur skorað 6 mörk í 11 leikjum í öllum keppnum með aðalliði Manchester United en hann skoraði meðal annars tvö mörk í fyrsta leiknum, fyrsta deildarleiknum og fyrsta Evrópuleiknum.

Marcus Rashford fagnar með félögum sínum í liði Manchester United.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×