Enski boltinn

Búið að reka McClaren

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Steve McClaren hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle. Þetta staðfesti félagið í yfirlýsingu í dag.

McClaren tók við Newcastle síðastliðið sumar og náði aðeins að stýra liðinu í 28 leikjum. En Newcastle er í næstneðsta sæti ensku deildarinnar eftir að hafa tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum.

Það var 3-1 tap liðsins fyrir nýliðum Bournemouth um helgina sem gerði útslagið en þrátt fyrir það tóku forráðamenn félagsins sér nokkra daga til að íhuga stöðuna.

„Okkur fannst nauðsynlegt að taka rétta ákvörðun á þessum tímapunkti og þurftum tíma til að sjá til þess að ákvörðunin væri tekin með bestu hagsmuni félagsins að leiðarljósi,“ sagði í yfirlýsingu félagsins.

Newcastle á næst leik gegn toppliði Leicester á mánudagskvöldið en sá sem hefur helst verið orðaður við stjórastarfið hjá liðinu er Rafael Benitez, fyrrum stjóri Liverpool, Chelsea og Real Madrid.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×