Erlent

Bótasvindlari sækir um sendiherrastöðu á Íslandi

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Håkan Juholt, fyrrverandi flokksleiðtogi sænskra jafnaðarmanna
Håkan Juholt, fyrrverandi flokksleiðtogi sænskra jafnaðarmanna
Fyrrverandi formaður sænska jafnaðarmannaflokksins, Håkan Juholt, hefur sótt um stöðu sendiherra Svíþjóðar á Íslandi. Þetta staðfestir Juholt í viðtali við sænska blaðið Expressen. Sendiherraskipti fara fram í september á næsta ári.

Håkan Juholt var flokksleiðtogi frá 2011 til 2012 þegar hann sagði af sér í kjölfar fjölda áskorana, að því er greint er frá á fréttavef Dagens Nyheter.

Hann sætti gagnrýni bæði utan flokks og innan, ekki síst þegar afhjúpað var að hann hefði um fjögurra ára skeið fengið fullar húsaleigubætur frá sænska þinginu vegna búsetu í Stokkhólmi. Juholt átti hins vegar aðeins rétt á hálfum bótum þar sem hann bjó ekki einn í Stokkhólmi, heldur með sambýliskonu sinni. Juholt sagði af sér þegar margir háttsettir flokksmenn neituðu að lýsa yfir trausti á honum.

Flokksleiðtoginn fyrrverandi, sem lét af þingmennsku fyrr á þessu ári, er sagður hafa endurgreitt þinginu 160 þúsund sænskar krónur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.