Innlent

Happdrættisfé rennur til Húss íslenskra fræða

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Eftir að framkvæmdir stöðvuðust við Hús íslenskra fræða hefur svæðið verið nefnt "hola íslenskra fræða“
Eftir að framkvæmdir stöðvuðust við Hús íslenskra fræða hefur svæðið verið nefnt "hola íslenskra fræða“ Vísir/Daníel
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við Hús íslenskra fræða haldi áfram á næsta ári. Framkvæmdirnar verða fjármagnaðar með hluta af framlagi Háskóla Íslands þ.e. 400 milljónum króna frá Happdrætti HÍ.

Íslenska ríkið mun þurfa að borga verktaka sem átti lægsta boð í byggingu Húss íslenskra fræða 120 milljónir króna í skaðabætur því ekkert hefur orðið af byggingarframkvæmdum vegna hússins. Sérstök heimild til slíks var samþykkt á Alþingi með fjáraukalögum fyrr í þessum mánuði. 

Í leiðara Fréttablaðsins í dag var þetta gagnrýnt. Þar var fullyrt að ekki væri gert ráð fyrir útgjöldum vegna framkvæmda við húsið í fjárlögum næsta árs. Hið rétta er að fé sem kemur frá Happdrætti HÍ verður notað til að halda framkvæmdum áfram. 

Kostnaður við byggingu hússins skiptist þannig að Háskóli Íslands leggur til 30 prósent af byggingarkostnaði og 70 prósent renna úr ríkissjóði.

Tölvuteikning af Húsi íslenskra fræða eins og það mun koma til með að líta út.Vísir/Árnastofnun
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á árinu 2017 og að þær verði fjármagnaðar með hluta af framlagi Háskóla Íslands, í formi 400 milljóna króna frá Happdrætti HÍ. Til að svo geti orðið þarf  útgjaldaheimild í fjárlögum til að umræddu fé sé ráðstafað með þeim hætti og hún er í fjárlagalið 02-201-650 „Byggingaframkvæmdir og tækjakaup“ í fjárlögum næsta árs.  

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 kemur fram að áætlað sé að 3,7 milljarðar króna renni til byggingar Húss íslenskra fræða. Í fyrirliggjandi áætlunum er gert ráð fyrir að fé til framkvæmdanna komi frá Happdrætti HÍ á næsta ári, úr ríkissjóði og Happdrætti HÍ á árinu 2018 og úr ríkissjóði árin 2019 og 2020.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.