Sá sem annaðist söluna fyrir hönd jarðeigenda er fasteignasalinn Jóhann Friðgeir Valdimarsson. Hann hafði verið með Grímsstaði á sölu í nokkur ár og var fyrst um sinn farið fram á milljarð króna fyrir landið.
„Verðið var of hátt greinilega svo við ákváðum að lækka það,“ segir Jóhann Friðgeir í samtali við Vísi og var verðið lækkað í 780 milljónir króna.

„En þeir fengu svakalega góða tölu fyrir þetta,“ segir Jóhann Friðgeir.
Um er að ræða Grímsstaði og Grímstungu sem eru í eigu tveggja fjölskylda. Landinu er skipt upp í átján hluta en íslenska ríkið á fjóra af þeim átján hlutum.
„Það er í rauninni verið að selja allt annað, nema einhvern smáhluta,“ segir Jóhann Friðgeir.
Hann segir Íslendinga geta verið sæla með þessa sölu. „Seljendurnir eru ánægðir og allir þeir sem höfðu áhyggjur af því að þarna kæmi einhver brjálæðingur að gera einhverja stóra hluti, það verður ekki. Hann ætlar að gera akkúrat ekki neitt. Allir ábúendur fá að vera þarna óáreittir og fá að halda áfram búrækt þarna,“ segir Jóhann Friðgeir.
Það á til að mynda einnig við um rekstur ferðaþjónustu í Grímstungu.
Þar með lýkur nokkurra ára ferli sem varðar sölu á Grímsstöðum á Fjöllum. Það er vafalaust mörgum enn í fersku minni þegar kínverjinn Huang Nubo vildi kaupa jörðina fyrir einum fimm árum. Var hugmyndin að reisa einskonar heilsuþorp á Grímsstöðum með hóteli og golfvelli.
Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, hafnaði beiðni Nubo um að veitt yrði undanþága frá lögum vegna kaupa á hlut í jörðinni á Grímsstöðum árið 2011.
Sagði Ögmundur að eignarhaldsfélag Nubos hefði ekki uppfyllt lög um afnot og eingarrétt. Hefði ráðuneytið fallist á ósk hans yrði það að samþykkja allar umsóknir utan EES í kjölfarið.