Viðskipti innlent

Nubo snýr sér til Noregs

Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo sem lengi hefur haft það á prjónunum að byggja upp ferðamannastað á Grímsstöðum á fjöllum, virðist nú vera að beina athyglinni til Noregs. Rætt er við Nubo á vefsíðu Bloomberg fréttaveitunnar og þar segir að hann sé í viðræðum um að kaupa hótel í Osló og að hann sé að leita að frekari fjárfestingarmöguleikum öðrum norskum borgum í ljósi þess að ekkert þokast í samkomulagsátt hvað varðar Grímsstaði á Fjöllum.

Hann segist áforma að fjárfesta í Noregi fyrir allt að hundrað milljónir bandaríkjadala, eða um ellefu milljarða íslenskra króna. Nubo segir að ferðamannaiðnaðurinn í Noregi sé sennilega þroskaðri en á Íslandi.

Nubo virðist þó ekki hafa gefið Ísland alveg upp á bátinn og segir að markmiðið sé að hefja uppbyggingu í einu eða tveimur norrænum löndum og færa sig síðan til Norður Evrópu, á meðan geti hann svo beðið eftir Íslandi, eins og það er orðað.

Nubo gagnrýnir löndin í Norður Evrópu í viðtalinu og segir þau enn mjög íhaldssöm. Þar líti menn á kínverska fjárfesta sem nýríka kaupahéðna sem vilji kaupa allt, strax.

Þá kemur einnig fram að á dögunum styrki hann KODE listasafnið í Bergen um tæpar tvær milljónir Bandaríkjadala gegn því að marmarasúlur sem eitt sinn stóðu í Gömlu Sumarhöllinni í Pekíng yrðu fluttar aftur til Kína. Það verður gert í september næstkomandi og verður þeim komið fyrir á safni Háskólans í Peking, þaðan sem Nubo útskrifaðist á sínum tíma.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.