Handbolti

Wilbek: Glaður að fara ekki á HM með Guðmundi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wilbek stefnir nú að því að verða borgarstjóri í Viborg.
Wilbek stefnir nú að því að verða borgarstjóri í Viborg. vísir/getty
Ulrik Wilbek, fyrrum þjálfari danska handboltalandsliðsins, segir að hann hafi tekið rétta ákvörðun þegar hann hætti sem íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins.

Wilbek sagði sem kunnugt er upp störfum hjá danska handknattleikssambandinu eftir mál sem kom upp á Ólympíuleikunum í Ríó. Wilbek reyndi þá að koma því í kring að Guðmundur Guðmundsson yrði rekinn sem þjálfari danska landsliðsins, jafnvel eftir að Danir unnu Ólympíugullið.

„Ég er viss um að ég tók rétta ákvörðun þegar ég hætti,“ sagði Wilbek í samtali við Politiken. Þar segir Wilbek að það hefði reynst honum nánast ómögulegt að fara á HM í Frakklandi á næsta ári með Guðmundi.

„Ef ég hefði haldið áfram í starfi og farið á HM þá hefði ekki verið þverfótað fyrir fréttum þar sem okkur Guðmundi er stillt upp sem óvinum,“ sagði Wilbek sem segir það alrangt að hann hafi viljað láta reka Guðmund. Málið sé á misskilningi byggt. Wilbek segist ennfremur ekki hafa talað við leikmenn danska landsliðsins eftir Ólympíuleikana.

Wilbek vildi lítið tjá sig um Nikolaj Jacobsen sem verður að öllum líkindum eftirmaður Guðmundar með danska landsliðið.

„Hann er flinkur þjálfari en meira vil ég ekki segja,“ sagði Wilbek sem hefur hellt sér út í pólitík og freistar þess nú að verða borgarstjóri í Viborg þar sem hann er í miklum metum.


Tengdar fréttir

Guðmundur: Varnarleikur okkar í síðari hálfleik algjörlega stórkostlegur

Guðmundur Guðmundsson náði sögulegu afreki í kvöld þegar hann gerði danska landsliðið að Ólympíumeisturum í handbolta karla. Danir eru fyrsta Norðurlandaþjóðin til að ná Ólympíugulli en Svíum tókst aldrei að vinna gull á Ólympíuleikunum með gullaldarlið sitt.

Guðmundur: Getur vel farið svo að ég hætti í handbolta

"Þetta var mjög erfið ákvörðun og ég var búinn að velta þessu lengi fyrir mér,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson í samtali við Vísi en það var tilkynnt í morgun að hann muni hætta með danska landsliðið á næsta ári.

Wilbek: Nú veit ég hverjir eru vinir mínir

Ulrik Wilbek, fyrrum landsliðsþjálfari Dana, varð uppvís af ótrúlegri hegðun á ÓL í Ríó er hann reyndi að láta reka Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara þó svo Guðmundur hefði unnið gullverðlaun með Dönum.

Gott fyrir Guðmund að hann gat tekið þessa ákvörðun sjálfur

Einn þekktasti íþróttafréttamaður Danmerkur telur að Guðmundur Guðmundsson hafi verið kominn í ómögulega stöðu með danska landsliðinu og að hann hafi ekki átt annan góðan kost en að framlengja ekki samning sinn við danska handknattl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×