Handbolti

Gott fyrir Guðmund að hann gat tekið þessa ákvörðun sjálfur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson fagnar Ólympíugullinu í Ríó.
Guðmundur Guðmundsson fagnar Ólympíugullinu í Ríó. Vísir/EPA
Eftirmál Ólympíuleikanna í Ríó hafa verið óvenjuleg fyrir danska handboltalandsliðið. Eftir eina stærstu stund í danskri íþróttasögu, er handboltalandsliðið vann gull í fyrsta sinn á Ólympíuleikum, kom fljótt í ljós að ekki var allt með felldu innan herbúða landsliðsins.

Skömmu eftir leikana bárust tíðindi þess efnis að óeining væri innan hópsins og að íþróttastjórinn Ulrik Wilbek, sem áður var þjálfari danska landsliðsins, hafi boðið leikmönnum upp á þann möguleika að reka Guðmund Guðmundsson úr starfi – og það á miðjum Ólympíuleikum.

Ekkert varð af því en eftir að fréttin spurðist út dró Wilbek sig í hlé og hætti sem íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins eftir áratuga starf fyrir sambandið og danskan handbolta. Í upphafi vikunnar var svo tilkynnt að samningur Guðmundar við sambandið, sem rennur út í sumar, verði ekki endurnýjaður að ósk Guðmundar.

Tíðindin komu Andreas Kraul, íþróttafréttamanni danska ríkissjónvarpsins, ekki á óvart. Hann sá fyrir að það hefði verið erfitt fyrir Guðmund að halda áfram eftir allt sem á undan gekk.

Vísir/EPA
Gullið var eins og þversögn

„Þetta var allt saman mjög skrýtið eftir Ólympíuleikana. Það kom í ljós að það var heilmikið af vandamálum innanbúðar í liðinu og það virkaði á mann næstum því eins og þversögn að liðið hefði svo unnið gull í Ríó,“ segir Kraul.

„Það gerði þetta allt saman flóknara. Gummi verður þó alltaf maðurinn sem skilaði danska handboltalandsliðinu stærsta sigrinum í sögu þess en var líka maðurinn sem var næstum því rekinn meðan á Ólympíuleikunum stóð,“ segir hann enn fremur.

Kraul segir að ákvörðun Guðmundar um að hætta sé rétt. Það sé einnig ákvörðun sem hafi verið óumflýjanleg.

„Það er gott fyrir Guðmund að hann geti tekið þessa ákvörðun sjálfur. Hann verður alltaf maðurinn sem færði Dönum Ólympíugull og hann er nú líka maðurinn sem getur hætt á eigin forsendum og sagt að nú vilji hann snúa sér að einhverju öðru.“

Jafnaðarmenn í dönskum íþróttum

Þrátt fyrir velgengnina í Ríó segir Kraul að það hafi verið byrjað að reyna á samband Guðmundar við leikmenn landsliðsins áður en það kom að þeirri keppni.

„Við Danir getum stundum verið svolítið skrýtnir,“ segir Kraul í léttum dúr. „Það eru líka sósíaldemókratar [jafnaðarmenn] í dönskum íþróttum eins og annars staðar í Danmörku. Raddir allra eiga að heyrast, öllum á að líða vel og varamenn eiga líka að fá að taka þátt í leiknum. Við segjum svo ítrekað að við séum orðnir þreyttir á þessu viðhorfi og að við viljum fá alvöru þjálfara, eins og þekkist til dæmis í Þýskalandi – mann með ákveðna sýn og sterkar skoðanir. Einhvern sem gerir okkur að sigurvegurum.“

En þar með er sagan ekki öll sögð, eins og kom í ljós með ráðningu Guðmundar. „Það kemur svo í ljós að það eru margir ósáttir við að hafa ráðið erlendan þjálfara. Og það voru ekki allir ánægðir með störf Guðmundar,“ sagði Kraul enn fremur en Guðmundur er þekktur fyrir stífan undirbúning fyrir leiki sem einkennist af fundarhöldum og myndbandsklippum.

„Þeir voru orðnir þreyttir á því, sem og að hver einasti andstæðingur var lofaður upp til skýjanna og hver einasti leikur sagður erfiður.“



Vísir/Getty
Vildi Wilbek ögra leikmönnum?

Kraul segir að leikmenn hafi átt frumkvæðið að því að ræða stöðu Guðmundar við Wilbek meðan á Ólympíuleikunum í Ríó stóð, þrátt fyrir að fyrstu fregnir danskra miðla hafi verið á þann veg að það hafi svo verið leikmennirnir sjálfir sem komu í veg fyrir það að Guðmundur hefði misst starfið.

„Þeir fóru til sambandsins og sögðu að þetta væri ekki að virka. Wilbek spurði einfaldlega á móti hvort það væri vilji leikmannanna að reka hann. En þeir vildu ekki ganga svo langt. Þeir vildu hafa meira að segja um undirbúninginn og færa aðstoðarþjálfaranum meiri völd. En þeir vildu ekki byltingu.“

Eins og málið birtist almenningi í fjölmiðlum hefur virst sem svo að Wilbek og Guðmundur hafi verið á öndverðum meiði en Kraul segir að málið sé ekki svo einfalt.

„Það má ekki gleyma því að það var Wilbek sem réð Guðmund á sínum tíma. Þetta er flóknara en svo að það sé hægt að benda á hver sé vondi aðilinn í þessu máli og hver sá góði. Wilbek er maður aðgerða og hann er líka maður sálfræðihernaðar. Kannski vildi hann ögra leikmönnum með þessu útspili, fremur en að ganga svo langt að reka Guðmund.“

Eitt stórmót eftir

Eftir stendur að Guðmundur verður áfram þjálfari danska liðsins fram á mitt sumar og hann stýrir liðinu á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar. Kraul telur að þrátt fyrir allt geti það gengið vel.

„Staðan sem var komin upp var afar erfið fyrir Guðmund en hann tókst afar vel á við hana, sem og eftir­málin. Danskir íþróttamenn eru aldir upp við það að hafa skoðun á öllum málum og það getur verið erfitt að þjálfa svoleiðis menn. En það eru öflugir leikmenn í þessu liði og menn geta vel komið sér saman um að starfa saman fram yfir HM í Frakklandi,“ segir Kraul.

Það sér því fyrir endann á þessu furðulega máli en lítið hefur heyrst hvað leikmennirnir sjálfir segja um það. „Þeir fengu að vita af þessu með SMS-skilaboðum átta mínútum áður en tilkynningin var send út. Það hefur því lítið heyrst í þeim.“


Tengdar fréttir

Guðmundur: Getur vel farið svo að ég hætti í handbolta

"Þetta var mjög erfið ákvörðun og ég var búinn að velta þessu lengi fyrir mér,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson í samtali við Vísi en það var tilkynnt í morgun að hann muni hætta með danska landsliðið á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×