Erlent

Meðlimum Eagles of Death Metal meinuð innganga á Bataclan

Birgir Olgeirsson skrifar
Jesse Hughes úr Eagles of Death Metal.
Jesse Hughes úr Eagles of Death Metal. Vísir/EPA
Annar af stjórnendum tónleikastaðarins Bataclan í París meinaði tveimur meðlimum hljómsveitarinnar Eagles of Death Metal inngöngu í kvöld, en hljómsveitin spilaði á tónleikunum örlagaríku á staðnum í fyrra þegar hryðjuverkamenn myrtu þar 89 tónleikagesti.

Að því er fram kemur í frétt AFP í Frakklandi um málið þá meinaði annar af stjórnendum Bataclan, Jules Frutos, meðlimunum tveimur, þar á meðal söngvaranum Jesse Hughes, inngöngu þegar þeir ætluðu sér að vera viðstaddir tónleika breska tónlistarmannsins Sting á staðnum í kvöld.

„Þeir mættu, ég henti þeim út. Það er sumt sem þú getur ekki fyrirgefið,“ sagði Frutos við AFP.

Í viðtali við FOX Business News í mars síðastliðnum gaf Hughes það í skyn að öryggisverðir Bataclan hefðu átt aðild að árásinni. Hughes baðst síðar afsökunar á þessum ummælum sem hann sagði tilhæfulaus og ekki á rökum reist.

Í viðtali nokkru síðar við Rolling Stone gagnrýndi hann ströng lög í Frakklandi um skotvopn.

„Komu þessi frönsku skotvopnalög í veg fyrir að ein einasta manneskja lét lífið á Bataclan? Ef einhver getur svarað því játandi þá væri ég til í að heyra viðkomandi segja það, því ég held að svo sé ekki,“ sagði Hughes.

Jules Frutos hafði sagt við AFP í september síðastliðnum að Eagles of Death Metal hefðu ekki beðið hann um að spila aftur á Bataclan, en sagði að ef bandið myndi gera það myndi hann neita þeirri bón.

Tónleikar Sting á Bataclan mörkuðu enduropnun staðarins sem hafði verið lokaður frá því árásin var gerð í nóvember í fyrra.

Hughes og umboðsmaður Eagles of Death Metal eru staddir í París um helgina til að vera viðstaddir minningarathöfn sem verður haldin á morgun, en þá verður ár liðið frá árásinni.


Tengdar fréttir

Tæpt ár frá hryðjuverkunum í París

Yfirmaður lækna- og bráðateymis sem starfaði á vettvangi hryðjuverkanna flutti erindi á alþjóðaráðstefnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×