Innlent

Ætti að vera ráðamönnum umhugsunarefni hvaða árangri Landspítali gæti náð

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri LSH
Páll Matthíasson, forstjóri LSH
Það ætti að vera ráðamönnum umhugsunarefni hvaða árangri Landspítali gæti náð væru starfseminni skapaðar eðlilegar forsendur, sér í lagi til úrræða þegar eiginlegri spítalameðferð sleppir, segir Páll Mattíhasson, forstjóri Landspítalans.

„Það gengur mikið á hjá okkur á Landspítala öllu jafna og ekki hvað síst síðustu daga og vikur þegar stöðugar fréttir hafa verið af miklu álagi á spítalanum. Þar er engu orði ofaukið og aðdáunarhvert hvernig allir hafa lagst á eitt til að láta starfsemina ganga við þessar erfiðu aðstæður. Það ber að þakka,” segir Páll í forstjórapistli á vefsíðu Landspítalans.

Páll segir að þriggja ára átak Landspítalans, sem hófst í mars í þessu ári, sé farið að skila árangri. Nú þegar níu mánuðir séu liðnir frá því að verkefnið hófst bendi margt til þess að markmiðið að gera biðtíma eftir aðgerðum sem það nær til styttri en þrjá mánuði sé að nást.

„Markmiðið er sömuleiðis að ná sem bestum árangri við styttingu á biðtíma eftir öllum aðgerðum. Sem dæmi um árangur þá hefur bið eftir bæklunaraðgerðum þegar styst um helming eða úr 16,7 mánuðum í 8,6 mánuði, augnaðgerðum úr 18,5 mánuðu í 10 og nú er biðtími eftir hjartaþræðingum rúmir 5 mánuðir í stað 9 áður,” segir Páll. Samhliða þessu hafi tekist að minnka meðalbiðtíma aðgerða sem séu utan hins skilgreinda átaks.

„T.d hefur biðtími eftir almennum skurðlækningum minnkað úr 7,3 mánuðum í 3,6 og í kvenlækningum úr 11,4 í 7,8 mánuði,” segir hann. Í ljósi þessa ættu ráðamenn að huga að því hvaða árangri Landspítalinn gæti náð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×