Innlent

Réðust á dyravörð á NASA

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tveir menn réðust að dyraverði á skemmtistaðnum NASA í gærkvöldi.
Tveir menn réðust að dyraverði á skemmtistaðnum NASA í gærkvöldi. vísir
Upp úr miðnætti í gærkvöldi var lögreglu tilkynnt um líkamsárás við Austurvöll en þar höfðu tveir menn ráðist á dyravörð á skemmtistaðnum NASA. Þeir köstuðu í hann flösku og reyndu að berja hann með áhaldi en mennirnir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Rétt fyrir hálffjögur í nótt var tilkynnt um óhapp við Snorrabraut. Ökumaður hafði ekið Bústaðaveg á móti umferð og svo keyrt á bíl við Snorrabraut. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn sofandi undir stýri og er hann grunaður um akstur undir áhrifum lyfja. Hann var vistaður í fangageymslu.

Um klukkan hálffjögur var síðan tilkynnt um ölvaðan mann sem var að ógna fólki með hníf á veitingastað í Hafnarfirði. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann, að því er segir í tilkynningu lögreglu.

Rétt eftir klukkan sex í gærkvöldi var síðan tilkynnt um mann á reiðhjóli sem var að beina byssu að fólki. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og var hann með leikfangabyssu. Þá er maðurinn grunaður um þjófnað á nokkrum reiðhjólum og var hann vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Þá voru nokkrir teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×