Innlent

Nærstaddir brugðust hárrétt við alvarlegu slysi í Kringlunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Tveir lögreglubílar og tveir sjúkrabílar voru kallaðir á vettvang í gærkvöldi.
Tveir lögreglubílar og tveir sjúkrabílar voru kallaðir á vettvang í gærkvöldi. Vísir
Karlmaður á sjötugsaldri hlaut alvarlega áverka á höfði þegar hann hrasaði í tröppum í Kringlunni í gærkvöldi. Atvikið átti sér stað í tröppunum sem eru við Café Roma á annarri hæð Kringlunnar og liggja að inngangi Kringlubíós á þriðju hæð. Aðkoman vakti töluverðan óhug meðal sjónarvotta en nokkur fjöldi var í Kringlunni á þessum tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni virðist maðurinn hafa hrasað og fallið beint fram fyrir sig á súlu og slasast mjög illa. Starfsmaður úr bíóinu ásamt gestum sem urðu vitni að þessu hlupu til mannsins og veittu honum fyrstu hjálp og hringdu í neyðarlínuna. Lögreglan segir nærstadda hafa brugðist hárrétt við.

Liggur maðurinn nú á gjörgæsludeild Landspítalans.

Lögreglan fer með rannsókn slyssins og mun meðal annars líta á upptökur úr eftirlitsmyndavélum Kringlunnar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×