Innlent

Örtröð fyrir utan Sporthúsið klukkan sex í morgun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Töluverður fjöldi fólks var mættur fyrir utan Sporthúsið í Kópavogi strax við opnun klukkan sex í morgun. Starfsmaður hafði þó sofið lítillega yfir sig og þurftu viðstaddir því að bíða í einhverja stund eftir að komast inn í líkamsræktarstöðina.

Ingi Páll Sigurðsson, eigandi Sporthússins, segir það miður að starfsmanninum hafi ekki tekist að opna stöðina á réttum tíma, en að vissulega hafi verið um mannleg mistök að ræða sem gerist fyrir besta fólk. Búið sé að ganga úr skugga um að slíkt hendi ekki aftur. „Það eru fleiri komnir með lykla að stöðinni þannig að þetta á ekki að koma fyrir aftur,“ segir Ingi.

Ræktarbrjálæði að ganga yfir landann

Aðspurður segir Ingi svokallað ræktarbrjálæði að ganga yfir landann. Hundruð manns mæti í ræktina eldsnemma á morgnanna og að allir tímar í Sporthúsinu séu afar vel sóttir.

„Það virðist vera vakning hjá landanum. Umræðan er farin að snúast meira um líkamsrækt og ég held að fólk sé meira að átta sig á því að það verði að hugsa almennilega um heilsuna. Ólíklegustu menn eru farnir að til dæmis hjóla og skokka, jafnvel menn sem hafa verið antí-sportistar allt sitt líf,“ segir Ingi.

Ingi segir jafnframt að aðsókn hafi verið svo mikil að Sporthúsið hafi þurft að bæta við hóptímum til þess að anna eftirspurn. Hann heldur að vinsældir líkamsræktar séu komnar til að vera.

„Ég sé ekkert annað gerast og ég trúi ekki að landið fari eitthvað að bakka út úr þessu,  þegar menn sjá hvað þeir hafa gott af því að hreyfa sig og hugsa um heilsuna.“

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá örtröðina sem hafði myndast fyrir utan líkamsræktarstöðina í morgun, en að sögn viðstaddra biðu jafnframt fjölmargir í bílum sínum fyrir utan Sporthúsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×