Innlent

Salmann Tamimi ógnað af mönnum með nasistahúðflúr

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Salmann Tamimi er formaður félags íslenskra múslima.
Salmann Tamimi er formaður félags íslenskra múslima. Vísir/Anton/Salmann Tamimi
„Þetta var voðalega óhugnanlegur atburður,“ segir Salmann Tamimi, formaður félags múslima á Íslandi, í samtali við Vísi. Salmann sagði frá því á Facebook síðu sinni fyrr í kvöld að tveir menn með merki SS sveita nasista húðflúrað á sig hafi veist að sér og vini sínum í dag. Salmann segir sjálfsagt að ræða og gagnrýna Íslam en að hatur sé ólíðandi.

"Vinur minn er með matsölustað sem heitir Jordan grill og ég var í heimsókn hjá honum. Svo löbbum við út þegar ég var að fara heim. Þá labba tveir menn að okkur. Annar spyr mig „Ert þú ekki Salmann?“ og ég segi jú, ég hélt kannski að þetta væri gamall nemandi minn," segir Salmann. 

„Hann spyr mig hvort ég hafi verið að mótmæla þegar við vorum með þjóðernisflokknum niðri í bæ,“ segir Salmann og vísar þar til mótmæla á Austurvelli þann 15. ágúst síðastliðinn. Þar mættust fulltrúar íslensku þjóðfylkingarinnar og hópur fólks sem vildi styðja við málefni hælisleitenda og flóttamanna. Salmann svaraði því játandi. 

Sjá einnig:Ólíkar fylkingar mættust á Austurvelli í dag

Annar mannanna spurði Salmann ítrekað hvort hann samþykkti ofbeldi sem eldri maður úr röðum íslensku þjóðfylkingarinnar hafi orðið fyrir á mótmælunum. Salmann segist hafa svarað svo að hann hefði ekki orðið vitni að atvikinu og að hann væri á móti öllu ofbeldi. 

Salmann segist hafa reynt að útskýra fyrir mönnunum að hann hafi rætt við fólk úr flokknum og að allt hafi farið vel þeirra á milli. „Þetta er flokkur með stefnuskrá sem er að mótmæla mér persónulega.“

Salmann kveðst hafa reynt að segja þeim að þeir væru velkomnir í bænahús múslima til að ræða málin. Þá hafi þeir sagst myndu nota vöðva í stað orða, næst þegar þeir hittust. 

„Þá segir hann „We are the power!“ og lyftir bolnum sínum og þá er hann með SS merki tattúverað á magann á sér. Hinn var með það aftan á hnakkanum. Ég sagði þeim að mátturinn væri í höfðinu, ekki vöðvum. Þá gengu þeir í burtu.“

Velkomið að ræða málin

„Það má alls ekki gefa þessum mönnum nein tækifæri til að dreifa sínu hatri,“ segir Salmann. „Þetta er afleiðing þessa hatursáróðurs sem er alltaf í gangi. Í gær í New York var reynt að kveikja í múslimakonu. Ég er hræddur við að þetta verði svona hér á landi,“

Hann segir Íslam ekki yfir gagnrýni hafið en að hatur komi ekki til greina. „Það er allt í lagi ef fólk vill ræða Íslam og gagnrýna Íslam. Það er alveg sjálfsagt, en ekkert hatur. Ég er alltaf að bjóða fólki að koma niður í mosku til okkar og forvitnast, ræða málin og spyrja hvaða spurninga sem er.“

Facebook færslu Salmann má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×