Innlent

Síðustu dagar þeir annasömustu á Landspítalanum í lengri tíma

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans . Mynd/Þorkell
Síðustu dagar á Landspítalanum hafa verið þeir annasömustu sem sést hafa undanfarin misseri, að sögn Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans. Inflúensa A hefur í ofanálag greinst á spítalanum og hafa starfsmenn verið hvattir til þess að láta bólusetja sig hið fyrsta.

Páll segir í forstjórapistli á vefsíðu Landspítalans að grípa hafi þurft til ýmissa aðgerða til þess að mæta álaginu. „Við höfum frá áramótum stuðst við svokallaðan gátlista innlagna, þar sem fylgst er með innlögnum og álagi á deildum spítalans og stigum við spítalann eftir fjölda sjúklinga,“ segir Páll. Stiga hafi þurft spítalann á hæsta stigi og velferðarráðuneyti og embætti landlæknis gert viðvart, ásamt því sem leitað hafi verið til nágrannasjúkrahúsa um aðstoð.

„Við höfum nýtt alla möguleika til gangayfirlagna á bráðadeildum og frestað skurðaðgerðum sem krefjast innlagna og hjartaþræðingum svo unnt væri að nýta dagdeildir fyrir legusjúklinga,“ segir Páll.

Tvö tilfelli af inflúensu A hafa greinst á einni deild Landspítala í Fossvogi. Þá eru fleiri sjúklingar og starfsfólk með flensueinkenni. Guðrún Sigmundsdóttir, settur sóttvarnalæknir, segir inflúensuna óvenju snemma á ferðinni, en það verði að koma í ljós hvernig framvindan verður.

„Það er ekki búið að staðfesta að þetta sé búið að skjóta rótum í samfélaginu almennt,“ segir Guðrún

Páll segir að sýkingavarnadeild hafi strax gripið til aðgerða, lokað deildinni fyrir innlögnum og að meðferð hafi hafist strax, ásamt því sem bólusetningar séu þegar hafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×