Innlent

„Semsagt, hið ágætasta veður í dag“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Í dag er útlit fyrir suðvestan 3-8 m/s og það léttir til nokkuð víða um landið.
Í dag er útlit fyrir suðvestan 3-8 m/s og það léttir til nokkuð víða um landið. Vísir/Getty
Búast má við hinu ágætasta veðri víða á landinu í dag samkvæmt hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings Veðurstofu Íslands á vef Veðurstofunnar.

„Í dag er útlit fyrir suðvestan 3-8 m/s og það léttir til nokkuð víða um landið. Hitinn kringum 10 stigin yfir daginn. Semsagt, hið ágætasta veður í dag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Þar segir einnig að nú í morgunsárið sé lægð við Hvarf sem færist í dag inn á Grænlandshaf. Skil frá lægðinni nálgast landið seinnipartinn. Það gengur í suðaustan 8-13 og fer að rigna í kvöld á Suður- og Vesturlandi og víðar um land í nótt og fyrramálið þegar skilin færa sig yfir landið.

Á morgun má gera ráð fyrir sunnan 5-13 með skúraveðri, en hann ætti að hanga þurr á norðaustanverðu landinu síðdegis. Hitatölurnar mjakast niðurávið og ekki gefið að 10 stigin náist í öllum landshlutum á morgun.

Veðurhorfur á landinu

Suðvestan 3-8 m/s og víða léttskýjað, en líkur á stöku síðdegisskúrum NA-til. Gengur í suðaustan 8-13 með rigningu í kvöld á S- og V-landi og víðar um land í nótt og fyrramálið. Sunnan 5-15 m/s á morgun, hvassast um landið A-vert, og víða skúrir en styttir upp NA-lands eftir hádegi. Hiti 6 til 12 stig

Á þriðjudag:

Sunnan 5-10 m/s, en norðaustan 8-13 á Vestfjörðum. Rigning eða skúrir, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti 6 til 13 stig, mildast NA-til.

Á miðvikudag:

Austan og norðaustan 3-10 m/s. Þurrt að kalla á landinu og bjart á köflum. Bætir í norðaustanáttina um kvöldið og fer að rigna sunnan- og austantil. Hiti 7 til 12 stig.

Á fimmtudag:

Ákveðin austlæg átt og rigning, en úrkomulítið um landið norðan- og vestanvert. Hlýnar heldur, einkum fyrir norðan.

Á föstudag:

Norðlæg átt og rigning með kólnandi veðri um landið norðanvert. Hæg breytileg átt fyrir sunnan, léttir til og hlýnar lítillega.

Á laugardag:

Útlit fyrir áframhaldandi norðlæga átt með rigningu víða og kólnar frekar, einkum norðvestanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×