Innlent

Mun stærri bikar í verðlaun fyrir strákinn en stelpuna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stelpurnar í 5. flokki FH brugðu á leik við verðlaunaafhendinguna.
Stelpurnar í 5. flokki FH brugðu á leik við verðlaunaafhendinguna. Mynd/FHingar.net
Fimleikafélag Hafnarfjarðar verðlaunaði á sunnudaginn leikmenn í yngri flokkum knattspyrnudeildar félagsins. Mættir voru iðkendur á aldrinum fjögurra til ellefu ára, þ.e, iðkendur í 8. flokki og upp í 5. flokk auk foreldra. Ragnheiður Birna Björnsdóttir var ein þeirra sem fylgdist með hátíðarhöldunum en stærðarinnar bikar á verðlaunaborðinu vakti athygli hennar og fleiri.

Ragnheiður segir muninn á bikurunum hafa verið áberandi þar sem þeir stóðu á borðinu og biðu nýrra eigenda, til eins árs, en um farandbikara var að ræða. Fólk hafi almennt ekki verið meðvitað um hver ætti að fá hvaða bikar. Fyrst hafi stúlkunum verið afhent verðlaun í 5. flokki og svo strákunum.

„Stelpan í 5. flokki fékk gyltan bikar og var sæl og glöð,“ segir Ragnheiður og í framhaldinu hafi verið farið í myndatöku. Þá var röðin komin á strákunum og þar hafi einn skarað fram úr.

„Hann fékk stærðarinnar silfurbikar, álíka stór og þessi sem þeir í meistaraflokki fá,“ segir Ragnheiður og á við Íslandsmeistarabikarinn FH-ingar lönduðu í gærkvöldi.

„Maður vissi ekkert hver fengi hvaða bikar en svo fengu stelpurnar litla bikarinn og strákarnir þann stóra.“

Lið Hattar í 5. flokki kvenna fékk bikarinn til vinstri á TM-mótinu í Eyjum í fyrra. 6. flokkur karla hjá Hetti fékk bikarinn til hægri á Orkumótinu síðar um sumarið. ÍBV breytti um stefnu eftir gagnrýni og eru bikararnir nú af sömu stærð.
Strákarnir alltaf svo heppnir

Ragnheiður segist ekki hafa getað notið augnabliksins eftir verðlaunaafhendinguna, hún hafi verið ósátt við hvernig staðið var að málum. Drengurinn hennar sagði við hana: „Við strákarnir erum alltaf svo heppnir.“ Ragnheiði var ekki skemmt.

Hún ákvað því að vekja athygli á málinu, skrifaði um afhendinguna á Facebook-síðu sína og í hópinn Karlar gera merkilega hluti. Stjórnendur yngri flokka hjá FH svöruðu Ragnheiði á Facebook og útskýrðu hvers vegna munur væri á bikurunum. Ástæðan væri sögulegs eðlis.

Þannig hefðu foreldrar gefið annan bikarinn til 5. flokks karla til minningar um unga drengi sem létust. Fyrsta Íslandsmeistaralið FH í kvennaflokki hefði svo gefið hinn bikarinn. Báðir bikararnir væru gjöf og því ekki ákvörðun félagsins að strákarnir fengju stærri bikar en stelpurnar.

Ragnheiður segir það gott og blessað en það sé engu að síður hennar skoðun að keyptur verði stærri bikar fyrir stelpurnar.

Myndir frá verðlaunaafhendingunni má sjá hér að neðan. Þar má sjá bikarana sem um ræðir. Hin öfluga stuðningsmannasíða FH, FHingar.net, birti myndirnar á Facebook-síðu sinni.


Sumar gjafir eldast illa

„Við fullorðna fólkið mótum umhverfið og sýn barnanna á kynin. Það sem börnin taka heim með sér af svona uppskeruhátíð er að stelpurnar fengu lítinn bikar en strákarnir stóran.“

Hvatti hún í framhaldinu yngri flokka FH til að passa upp á að gera ekki upp á milli kynjanna á svo áberandi máta. Enda velti börnin lítið fyrir sér hver gefi bikarinn. Stjórnendur yngri flokka segja í svari til Ragnheiðar á Facebook að Barna- og unglingaráð muni endurskoða verklag við móttöku og veitingu slíkra gjafa.

Ragnheiður fagnar því og hrósar FH-ingum fyrir viðbrögðin. Fróðlegt verði að sjá hvernig þeir taki á málinu.

„Sumar gjafir eldast illa,“ segir Ragnheiður. Þannig detti henni ekki í hug að gefa dóttur sinni gamla matreiðslubók sem gengið hafi á milli kynslóða kvennamegin í ættinni. 

„Þar er farið yfir hve fín og tllbúin með matinn konan eigi að vera þegar karlinn kemur heim úr vinnunni, og leyfa honum að hvíla sig,“ segir hún.

Því sé best að kaupa bara flotta og stóra bikara fyrir bæði kynin og setja hina, sem vissulega hafi sögulegt gildi, upp í glerhillurnar í Kaplakrika með öðrum eldri bikurum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×