Innlent

Hafa áhyggjur af því að koma slösuðu eða veiku fólki ekki á sjúkrahús

Samkvæmt tölum sem Vegagerðin tók saman óku 6.839 vestur um Ártúnsbrekku á milli hálf átta til níu í morgun. Það eru 912 ökutækjum meira en óku um sama vegarkafla dagana 8. og 15. ágúst samanlagt, en þó óku 5.927 ökutæki þar um.

Yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að umferð um aðalstofnæðar aukist á þessum árstíma, þegar skólar eru að hefjast og atvinnulífið að komast eðlilegar skorður eftir sumarorlof.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar LHR, segir að umferðarþunginn veki áhyggjur hjá viðbragðsaðilum sem þurfa að komast leiðar sinnar þegar þörf er á. Eins og staðan er núna geti það reynst erfitt.

Sérstaklega þar sem það geti tekið langan tíma að komast að Landspítalanum í Fossvogi og við Hringbraut.

Ekki góð reynsla af inngripum

„Það getur gert það og erum við þá að horfa sérstaklega til sjúkraflutninga þar sem sekúndur og hvað þá mínútur geta skipt máli. Vissulega höfum við áhyggjur af þessu og ég veit að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur áhyggjur af þessu líka.

Lögregla getur varla verið með inngrip í umferðina því hún er kagstífluð alls staðar og ef þú ætlar að stöðva umferð hér og veita henni forgang þá stíflar þú aðrar hliðargötur eða aðrar stofnæðar meira heldur en fyrir er.

Reynslan af því að hafa inngrip á þessum tíma er ekki góð,“ segir Guðbrandur.

Einnig var rætt við nokkra ökumenn sem voru á ferð um Ártúnsbrekku í morgun, en ummæli þeirra má sjá í myndskeiðinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×