Innlent

Árásin í Þorlákshöfn: Kom aftan að drengnum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Vísir/GVA
Lögreglunni á Suðurlandi hefur ekki borist frekari vísbendingar um manninn sem reyndi að draga dreng inn í bíl sinn á Þorlákshöfn í gær. Lögreglan lítur málið alvarlegum augum og rannsakar það sem árás fremur en tælingu.

Drengurinn var á gangi eftir göngustíg í bænum þegar maðurinn fór út úr bílnum og kom aftan að drengnum og reyndi að draga hann inn í bíl sinn. Drengurinn, níu ára gamall, brást þó rétt við og kom sér undan manninum. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er lýsing drengsins á manninum það eina sem lögreglur hefur á að byggja í málinu. Hann er sagður vera 30 til 40 ára gamall, um 180 cm á hæð. Þybbinn með ljósbrúnt hár. Var hann svartklæddur í peysu sem á stóð ASA með áberandi appelsínugulum stöfum, þá var hann í rauðum skóm og íþróttabuxum. Er hans nú leitað en ekki liggur fyrir lýsing á bíl mannsins.

Í Facebook-hópnum „Íbúar í Þorlákshöfn“ hefur skapast töluverð umræða um málið og í athugasemdum við færsluna kemur fram að um þrjú tilvik sé að ræða sem upp hafa komið síðustu daga. Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, segir þó að engin fleiri slík mál séu inni á borði lögreglu utan þess sem kom upp í gær. Rannsókn þess muni halda áfram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×