Innlent

Heimtengingar settar á ís eftir banaslys

Birgir Olgeirsson skrifar
Veitur eru dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur.
Veitur eru dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Vísir/stefán
„Akkúrat núna, meðan við ákveðum nýtt vinnulag, erum við ekki að tengja neinar heimtaugar,“ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, í samtali við Vísi þegar hún er spurð hvernig fyrirtækið hagi starfsemi sinni eftir að starfsmaður þess lést eftir slys við tengingu heimtaugar í síðustu viku. Veitur eru dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur.

Heimtaugin átti að vera spennulaus en starfsmaður fékk engu að síður straum og fór í hjartastopp. Nærstaddir beittu fyrstu hjálp þangað til sjúkraflutningamenn mættu á vettvang. Þegar starfsmaðurinn hafði verið fluttur á sjúkrahús gekkst hann undir hjartaþræðingu. Hann var því næst fluttur á gjörgæsludeild þar sem hann var úrskurðaður látinn aðfaranótt laugardags.

Vinnueftirlitið, Mannvirkjastofnun og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fara með rannsókn slyssins en aðspurð hvort liggi fyrir hvað fór úrskeiðis segir Inga Dóra það vera í höndum rannsóknaraðila að komast að því.

Veitur vinna nú að nýju vinnulagi við tengingu heimtauga, sem eru nýjar lagnir inn í nýbyggingar, en það hefur ekki verið virkjað. Á meðan svo er, er ekki unnið við slíkar tengingar sem mun tefja fyrir við framkvæmdir á nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum búin er að teikna upp drög að nýju vinnulagi við tengingu heimtaugar en það hefur ekki verið virkjað,“ segir Inga Dóra. Hún segir að þegar að því komi muni slíkar heimtengingar verða tímafrekari en jafnframt öruggari, sem sé markmiðið með breytingunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×