Innlent

Starfsmaður Veitna lést eftir vinnuslys

Birgir Olgeirsson skrifar
Samverustund haldin með starfsfólki Orkuveitu Reykjavíkur í morgun.
Samverustund haldin með starfsfólki Orkuveitu Reykjavíkur í morgun. Vísir
Starfsmaður hjá Veitum sem lenti í alvarlegu vinnuslysi síðastliðinn föstudag er látinn. Veitur er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur en starfsfólki þar var tilkynnt um andlátið í morgun og var í kjölfarið haldin samverustund með presti.

Trausti Klemenzson var rafvirki og hóf störf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1988. Hann var 62 ára gamall og lætur eftir sig tvo uppkomna syni.Vísir
Maðurinn hét Trausti Klemenzson. Hann var rafvirki og hóf störf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1988. Hann var 62 ára gamall og lætur eftir sig tvo uppkomna syni. 

Trausti var að vinna við tengingu heimtaugar í Úlfarsárdal. Hún átti að vera spennulaus en maðurinn virðist engu að síður hafa fengið straum og fór í hjartastopp. Sjúkrabíll var kallaður til ásamt lögreglu og var Vinnueftirlitinu og Mannvirkjastofnun gert viðvart.

Hann var fluttur á Landspítala Íslands þar sem hann gekkst undir hjartaþræðingu og var þaðan fluttur á gjörgæsludeild þar sem hann var úrskurðaður látinn aðfaranótt laugardags.

Vinnueftirlitið, Mannvirkjastofnun og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fara með rannsókn málsins en í tilkynningu frá OR kemur fram að þær upplýsingar sem Veitur hafa um atburðarásina benda til að starfsmenn fyrirtækisins hafi fylgt gildandi verklagi og strax nú um helgina var hafist handa við að fara yfir verklagið. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×