Innlent

Mörg víti að varast þegar kemur að byggingu nýs þjóðarleikvangs

Anton Egilsson skrifar
Tölvuteikning af mögulegum yfirbyggðum þjóðarleikvangi í Laugardalnum. Birt með góðfúslegu leyfi Bjarna Snæbjörnssonar arkitekts.
Tölvuteikning af mögulegum yfirbyggðum þjóðarleikvangi í Laugardalnum. Birt með góðfúslegu leyfi Bjarna Snæbjörnssonar arkitekts.
Fyrirhugaður kostnaður við endurbyggingu Laugardalsvallar, sem myndi taka rúmlega 20 þúsund manns í sæti, er talinn nema um 8 milljörðum króna. Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands sagði í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum  að forsvarsmenn sambandsins væru að fara yfir skýrslu þar sem hagkvæmni nýs Laugardalsvallar er metin. Í kjölfarið muni knattspyrnusambandið taka ákvörðun um hvort farið verði í hönnunarferli.

Geir Þorsteinsson hefur verið ötull talsmaður þess að nýr Laugardalsvöllur rísi og er stórhuga í þeim efnum.

„Við byggðum Hörpuna en nú þurfum við að byggja menningarhús þjóðarinnar, yfirbyggðan leikvang þar sem við getum haft stóra viðburði. Knattspyrnuleiki fyrir tuttugu, tuttugu og fimm þúsund manns, tónleika þar sem fólkið getur komið og glaðst. Við þurfum slíkan leikvang og við þurfum skilning,“ sagði Geir í samtali við fréttastofu í september í fyrra. 

Margir telja eflaust sjálfsagt að ráðast í slíkar framkvæmdir í ljósi núverandi stöðu en ásókn á leiki íslenska landsliðsins hefur aldrei verið meiri en nú. Uppselt hefur verið á nánast alla leiki síðan góður árangur fór að láta á sér kræla og ekki sést fyrir endann á þessum mikla áhuga landans.

Þá boðaði Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA nýlega nýtt keppnisfyrirkomulag á  Evrópumóti landsliða sem hefst árið 2018. Samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi er leikið meðal annars yfir vetrartímann en þá eru aðstæður hér á landi orðnar vægast sagt slæmar til slíks. Hreinlega gæti farið svo að íslenska landsliðið þyrfti að leika heimaleiki sína erlendis.  Eins og svo oft áður þegar kemur að svona stórum og kostnaðarsömum framkvæmdum eru uppi mismunandi skoðanir um kosti þess og galla.

Hallbera Guðný Gísladóttir.Vísir
„Maður verður að hafa trú á því að þessi uppgangur haldi áfram“

Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður Breiðabliks og landsliðs kvenna í knattspyrnu, segir tíma kominn á nýjan þjóðarleikvang. Með nýjum leikvangi myndi knattspyrnuheimurinn losna við þessa umtöluðu hlaupabraut sem er á Laugardalsvellinum í dag og þannig myndu áhorfendur færast nær leikmönnum sem er ávísun á betri stemningu.

„Mér finnst kominn tími á þetta,“ segir Hallbera. Í úttekt Viðskiptablaðsins er talað um að árlegar tekjur af leikvanginum gætu numið allt að 250 til 300 milljónum króna. Ef farið verður í uppbyggingu á annarri þjónustu í leikvanginum, svo sem verslunum, veitingastöðum eða hóteli, þá munu tekjurnar aukast og forsendur verkefnisins breytast. 

Hallbera segir í samtali við Vísi að ef svo fer sé ekki spurning um ráðast í þessa framkvæmd, sérstaklega í ljósi þess meðbyrs sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu nýtur um þessar mundir en það er eina liðið á landinu sem nær að fylla Laugardalsvöll í núverandi ástandi og líkast til það eina sem gæti hugsanlega fyllt 20 þúsund manna völl.

Hallbera segir að vissulega sé ekki langt síðan að ekki náðist að fylla Laugardalsvöll. „En maður verður að hafa trú á því að þessi uppgangur haldi áfram.“

Mörg dæmi um að svona dæmi hafi endað illa

Stefán Pálsson sagnfræðingur tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hann var ekki alltof bjartsýnn en segir þó í samtali við Vísi að það þurfi ekkert að vera að svona bygging yrði einhverskonar glapræði.

Stefán Pálsson, sagnfræðingur.
„Það eru mörg dæmi um að svona hafi virkað vel. En ef menn hafa kynnt sér íþróttasöguna þá sér maður að það eru óskaplega mörg dæmi um að svona verkefni hafi endað illa. Þarna hafa menn nefnt Stabæk ævintýrið,“ segir Stefán.

Þegar talað er um „Stabæk ævintýrið“ er það vísun í flutninga norska úrvalsdeildarliðsins Stabæk á nýjan yfirbyggðan heimavöll, Telenor völlinn árið 2008. Með því jók Stabæk fjölda áhorfendasæti um rúman helming frá gamla heimavellinum, eða í fimmtán þúsund sæti, en flutningur þessi átti nánast eftir að setja liðið í gjaldþrot á innan við þremur árum. Varð það til þess að Stabæk flutti heimaleiki sína aftur yfir á gamla heimavöllinn, Nadderup.

Þá hafi margoft verið rifjað upp í ástandið hjá þeim þjóðum sem hafa haldið Ólympíuleika eða heimsmeistaramót í knattspyrnu.

„Við erum til dæmis með velli sem grotna niður í Brasilíu, Suður-Afríku og Úkraínumenn og Pólverjar eru með velli sem þeir hafa ekki hugmynd um hvað á að gera við. Í öllum þessum tilvikum eru menn búnir að lána út fyrir einhverjum útreikningum sem sögðu að menn myndu taka öll stóru mótin og svo yrðu allir tónleikar þar og fleira gaman,“ segir Stefán.

Reikna sér sömu tekjulindir

Hann segir menn hafa tilhneigingu til að reikna sér alltaf sömu tekjulindirnar og nefnir þar sem dæmi Egilshöll í Grafarvogi.

„Hluti af því tekjumódeli var að það væri hægt að halda mikið af tónleikum. Þeir voru þar fyrstu árin,“ segir Stefán en minna hefur verið af tónleikum þar hin síðari ár og hafa hallir á borð við Laugardalsvöll og Kórinn í Kópavogi tekið við flestum stórtónleikum síðustu ár.

Stefán segist einnig spyrja sig þeirrar spurningar hvort það sé óeðlilegt ástand að uppselt sé á vinsælustu leiki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.Vísir/Vilhelm
Stefán segist einnig spyrja sig þeirrar spurningar hvort það sé óeðlilegt ástand að uppselt sé á vinsælustu leiki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

„Er það ekki bara normið? Ég er ekki að segja að það yrði galið að leita ódýrra leiða til að stækka Laugardalsvöllinn og eitthvað þar fram eftir götunum, en ég held að það sé ekkert samfélag í heiminum sem hugsar það sem svo að það eigi aldrei að vera uppselt á eftirsóknarverðustu íþróttaviðburðina.“

Hann bendir til að mynda á að þó að seljist upp á tónleika í Hörpu nokkur skipti í röð þá sé enginn að bölva því að Eldborgarsalurinn hafi ekki verið gerður þrisvar sinnum stærri.

3.500 manns á 20.000 manna velli

Þá segir hann að menn ættu mögulega að staldra við horfa á hvaða viðureignir myndu fara fram á þessum nýja 20 þúsund manna leikvangi. Á bikarúrslitaleik karla í sumar hafi til að mynda mætt 3.500 manns. „Á 20 þúsund manna velli er það bara grín.“

Hann segir Íslendinga hafa mörg víti að varast erlendis frá þar sem knattspyrnusambönd og íþróttafélög hafa spennt bogann of hátt. „Þá lendir þú í því að allur peningurinn er bundinn í rekstrar- og viðhaldskostnaði. Bara viðhaldskostnaður á átta milljarða velli er mikill. Miðað við áætlanir á nánast að græða milljón á dag, 300 milljónir á ári, og þá ertu ekki með 3. flokk Þróttar að æfa þar á kvöldin. Þú þarft að hafa sjávarútvegssýninguna, stórtónleika og árshátíð Icelandair á hverri helgi.“


Tengdar fréttir

Dýrari en Perlan en ódýrari en Harpa

Allir eru að tala um mögulega byggingu þjóðarleikvangs á Laugardalsvelli. Þingmenn ræddu hugmyndirnar við setningu Alþingis og bæði fjármálaráðherra og menntamálaráðherra segja tíma kominn á nýjan leikvang.

Leikvangur sem yrði í anda víkinga

Nemendur á fyrsta ári við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík kynna í dag hugmyndir sínar um nýjan þjóðarleikvang. Þjóðarleikvangur hefur verið mikið í umræðunni eftir jafntefli Íslands og Kasakstans á Laugardalsvelli á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×