Enski boltinn

Fyrirliði Swansea farinn til Everton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Williams er kominn í blátt.
Williams er kominn í blátt. mynd/everton
Ashley Williams er genginn í raðir Everton frá Swansea City. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en talið er að það sé í kringum 12 milljónir punda.

Williams skrifaði undir þriggja ára samning við Everton. Hann kemur til með að fylla skarð John Stones sem var seldur til Manchester City í gær.

Williams lék í átta ár með Swansea og átti stóran þátt í uppgangi félagsins. Williams var algjör lykilmaður í vörn Swansea og lék 181 af 190 leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni undanfarin fimm tímabil.

Williams var fyrirliði hjá Swansea en hann ber einnig fyrirliðabandið hjá velska landsliðinu sem komst alla leið í undanúrslit EM í Frakklandi í sumar.

Everton olli miklum vonbrigðum á síðasta tímabili þegar liðið endaði í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Varnarleikurinn var aðal hausverkur Everton en liðið fékk á sig 55 mörk í 38 deildarleikjum í fyrra.

Hinn 31 árs gamli Williams lék alls 352 leiki með Swansea og skoraði 14 mörk. Hann varð deildarbikarmeistari með velska liðinu 2013.


Tengdar fréttir

Besic frá í hálft ár

Miðjumaður Everton Muhamed Besic spilar ekki meiri fótbolta á þessu ári.

Everton að kaupa Bolasie fyrir 30 milljónir punda

Everton hefur komist að samkomulagi við Crystal Palce um kaup á vængmanninnum Yannick Bolasie. Þetta herma heimildir Sky Sports, en þetta birtist á vef fréttastofunar fyrir skömmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×