Sport

Murray mætir del Potro í úrslitunum í Ríó

Rafa Nadal.
Rafa Nadal. Vísir/getty
Juan Martín del Potro frá Argentínu mætir hinum breska Andy Murray í úrslitum í tennis á Ólympíuleikunum í Ríó en del Potro sló út Rafa Nadal í ótrúlegum leik sem lauk rétt í þessu.

Sá argentínski var kominn í undanúrslitið aðra Ólympíuleikana í röð en hann þurfti að horfa á eftir fyrsta settinu til Nadal 7-5.

Honum tókst að vinna annað settið 6-4 og þurfti því oddasett til þess að útkljá hvor þeirra myndi mæta Murray í úrslitunum.

Del Potro var með laglega stöðu og þurfti aðeins eina lotu til þess að sigra Nadal en sá spænski neitaði að gefast upp og náði að knýja fram odda.

Eftir jafnræði framan af tókst del Potro loksins að tryggja sér sigurinn en það mátti greinilega sjá á fagnaðarlátum hans eftir að sigurinn var í höfn hvað þetta þýddi fyrir hann.

Í fyrri leik dagsins mættust þeir Andy Murray sem hefur titil að verja og Kei Nishikori frá Japan. Nishikori sem er í 7. sæti á styrkleikalistanum átti litla möguleika í fyrsta settinu sem Murray hafði örugglega 6-1.

Aðstæður voru erfiðar í Ríó og áttu báðir keppendur í erfiðleikum með hitastigið eftir því sem leið á leikinn.

Nishikori hélt betur í við Murray í öðru settinu en Murray reyndist sterkari á lokasprettinum og tryggði sér sæti í úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×