Sport

Sjáðu úrslitahlaupið í 100 metra hlaupi kvenna í Ríó | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elaine Thompson frá Jamaíku kom fyrst í mark í úrslitum í 100 metra hlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.

Thompson vann nokkuð öruggan sigur í hlaupinu en hún hljóp á 10,71 sekúndu, 0,12 sekúndum á undan Tori Bowie frá Bandaríkjunum sem varð önnur. Thompson var aðeins 0,01 sekúndu frá því að jafna sinn besta tíma.

„Þegar ég kom yfir línuna leit ég til hliðar til að sjá hvort ég hefði unnið. Ég vissi ekki hvernig ég átti að fagna,“ sagði hin 24 ára gamla Thompson eftir hlaupið í nótt.

Í 3. sæti varð landa Thompson, Shelly-Ann Fraser-Pryce, en hún vann gull í 100 metra hlaupi á ÓL í Peking 2008 og í London fjórum árum seinna. Hún tók tapinu með sæmd.

„Ég er ánægðust með að titilinn í 100 metra hlaupinu heldur kyrru fyrir á Jamaíku. Ég stend á verðlaunapallinum með æfingafélaga mínum. Ég er stolt af Jamaíku,“ sagði Fraser-Pryce sem missti af tækifærinu til að verða fyrsta konan í sögu ÓL til að vinna 100 metra hlaupið þrisvar í röð.

Þriðji fulltrúi Jamaíku í 100 metra hlaupinu, Christania Williams, endaði í 8. sæti á 11,80 sekúndum.

Hundrað metra hlaupið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×