Íslenski boltinn

Arnar: Sumir hefðu fengið það óþvegið hefðum við ekki fengið þrjú stig

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks.
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks.
Arnar Grétarsson þjálfari Blika var ánægður með stigin þrjú gegn Þrótti í kvöld og sagði sína menn hafa verið betra liðið allan leikinn.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna. Það var eitt lið á vellinum frá upphafi til enda en það sem ég er kannski óánægður með er kæruleysi uppvið markið. Við erum ekki að fá dauðafæri heldur færi sem á ekki að vera hægt að klúðra,“ sagði Arnar í samtali við Vísi í leikslok.

„Staðan 2-0 er alltaf hættuleg. Þú getur fengið á þig aukaspyrnu eða hornspyrnu þar sem kemur inn mark og þá er þetta orðið leikur. Í staðinn fyrir að stúta leiknum 3-0 og geta þá verið rólegri og jafnvel bætt við fleiri mörkum. En heilt yfir er ég mjög sáttur. Við spiluðum mjög vel, héldum boltanum allan tímann og sköpuðum aragrúa af færum. Ég hefði viljað skora fleiri mörk,“ bætti Arnar við.

Sum þeirra færa sem Blikar nýttu ekki í kvöld voru afar góð og í raun ótrúlegt að þeir hafi ekki skorað.

„Það er hárrétt. Sumir hefðu fengið það óþvegið hefðum við ekki farið með þrjú stig héðan. Við komumst upp með það núna en þetta hefur kostað okkur stig í sumar. Við höfum verið að ráða ferðinni en klúðrað dauðafærum. Í dag voru yfirburðirnir það miklir að þeir ógnuðu okkur lítið, fyrir utan eitt færi var þetta nánast einstefna,“ sagði Arnar.

Með sigrinum halda Blikar sig í nánd við toppinn og eru fimm stigum frá FH. Arnar fór rólega í allt tal um titilbaráttu.

„Næsti leikur er gegn KR. Það verður erfitt í Vesturbænum og þangað þurfum við að sækja þrjú stig. Markmiðið er allavega að vera í efstu þremur og við erum enn í þeirri baráttu. Það er mikið af innbyrðis viðureignum eftir og við þurfum að sjá hvað gerist. FH er með góða forystu eins og staðan er í dag,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×